Leyfir sér mjög skrítna hluti

Frá Aldrei fór ég suður 2010 en þá steig heimamaðurinn …
Frá Aldrei fór ég suður 2010 en þá steig heimamaðurinn Mugison á svið. Ljósmynd/ Halldór Sveinbjörnsson

„Án þess að vera með hroka vil ég meina að þessi hátíð hafi það fram yfir aðrar að hún leyfir sér oft mjög skrítna hluti,“ segir Kristján Freyr Halldórsson, einn skipuleggjenda tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, eftir að blaðamaður minnist á frumlega samsetningu skemmtikrafta þetta árið. 

Aldrei fór ég Suður sem haldin er á Ísafirði ár hvert er, mun hreppa vænan skerf af páskaglöðu ferðafólki þessa helgina. Hátíðin er enda fyrsta „úti“-hátíð ársins og nýtur gríðarlegra vinsælda meðal heimamanna sem og annarra tónlistar- og menningarunnenda.

Dagskráin í ár skartar eins ólíkum tónlistarmönnum og Glowie, Emiliönu Torrini, GKR og Mömmu Hesti en sú sveit er svo gömul í hettunni að heimasíðan hennar er á textavarpinu. Kristján segir að upprunalega hafi verið sótt í einhverskonar grasrótarmenningu við val á tónlistarfólki vegna smæðar hátíðarinnar sem var og er skipulögð af sama vinahópnum ár hvert. Með tíð og tíma hafi vægi vestfirskra sveita aukist og að nú sé svo komið að hljómsveitir sæki hreinlega um.

„Ég held að við höfum aldrei verið með einhver umsóknarform, við höfum bara verið svo heppin að flestir vilja koma til okkar og spila. Þar verður úr einhver bræðingur sem endar á plakatinu hvert ár en það er alltaf mjög erfitt að velja.“

Einn skemmtikraftur stingur í stúf við aðra á umræddu plakati í ár því inn á milli vestfirskra ballsveita og þjóðþekktra miðbæjarrotta má sjá 69 ára karldýr sem þekktast er undir nafninu Laddi. Grínistann góðkunna þarf að sjálfsögðu ekki að kynna fyrir neinum en Kristján viðurkennir að valið sé vissulega óvenjulegt.

„Ég hafði gaman að því að fylgjast með viðbrögðunum við þessu. Það eru allir að keppast við að vera hipp og kúl í dag og það getur verið hárfín lína að fara rétt að og koma ekki við kaunin á fólki en mér sýnist þetta bara hafa slegið í gegn.“

Blizzard vibes #afes14 #Snow #iceland #bestur #gott by nathanwoodhead

Posted by Aldrei Fór Ég Suður on Sunday, April 20, 2014

Úr bakherbergjum Húrra í Alþýðuhúsið

Hátíðin færir sig um set í ár því Rækjuverksmiðjan Kampi hefur lánað henni glænýtt geymsluhúsnæði sem stendur á eyrinni skammt frá Neðstakaupstað og því stutt frá miðbæ Ísafjarðar. Það verður að teljast hentugt þar sem mikið er um dýrðir á hliðardagskrá hátíðarinnar á vertshúsum bæjarins og hátíðin sjálf annar vart eftirspurn.

Kristján segir nýja húsnæðið henta afskaplega vel, þar verði líklega ekki eins kalt og oft hefur verið en geymslan sé þó ekki mikið stærri en fyrra húsnæði.

„Það er frítt inn eins og alltaf og við erum löngu búin að sprengja þessa hátíð af okkur. Við megum ekkert stækka of mikið og þegar mest hefur látið síðustu árin hefur kannski einn þriðji gesta verið inni í húsinu og tveir þriðju fyrir utan. Sem betur fer eru allir frekar umburðarlyndir og rótera reglulega.“

Ungir sem aldnir njóta njóta tónlistarhátíðarinnar ár hvert þó sumir …
Ungir sem aldnir njóta njóta tónlistarhátíðarinnar ár hvert þó sumir séu rokkaðri en aðrir.

Kristján segir skipuleggjendur eiga erfitt með að áætla fjöldatölur en að þeir hafi heyrt af því að gistirými á Ísafirði og nágrannabæjarfélögum á við Bolungarvík, Súðavík, Flateyri sé óðum að klárast og fólk sé farið að panta í Dýrafirði. Því sé ljóst að hátíðin verði „geðveik“.

Aðspurður um góð ráð fyrir þá sem eru að fara á Aldrei fór ég suður í fyrsta skipti mælir Kristján sérstaklega með því að fólk nýti dagana í að heimsækja nágrannabyggðalögin. T.a.m. verði haldnir afmælistónleikar á vegum 66 ° Norður  á Suðureyri á laugardeginum þar sem Sjóklæðagerðin var stofnuð þar í bæ fyrir 90 árum síðan.

Þá gefist einstakt tækifæri til að kynna sér strauma og stefnur í listsköpun á árlegum rokkfundi í Alþýðuhúsinu á föstudag. Þar koma tónlistarmenn hátíðarinnar saman og eiga samtöl um tónlistariðnaðinn sem annars eiga sér bara stað „í bakherbergjum Húrra“ eins og Kristján orðar það.

„Það er gott að klæða sig vel og vera vel skóaður. Þar er grunnurinn finnst mér og svo er hægt að einbeita sér að því að skemmta sér.“

  Frekari upplýsingar um hátíðina má finna á aldrei.is og á Facebook síðu hátíðarinnar. Frekari upplýsingar um aðra viðburði páskahelgarinnar má finna á viðburðarsíðu mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert