„Var kannski bara falskt öryggi“

Lögreglumaður fyrir utan Zaventem flugvöllinn í Brussel í dag. Sprening …
Lögreglumaður fyrir utan Zaventem flugvöllinn í Brussel í dag. Sprening varð bæði á flugvellinum og í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar. AFP

Frá því hryðjuverkin í París voru framin í nóvember á síðasta ári hafa hermenn verið mjög sýnilegir úti á götum, á flugvellinum og öðrum fjölförnum stöðum í Brussel. Þetta veitti öryggistilfinningu, en atburðir morgunsins sýna að þetta var kannski bara falskt öryggi. Þetta segir Þórunn Ragnarsdóttir, íbúi í Brussel í samtali við mbl.is.

Þórunn hefur ásamt eiginmanni sínum, Angantý Einarssyni og börnum búið í Brussel síðustu tvö árin og þar áður í tvö ár frá 2004-2006. Hún þekkir því ágætlega til borgarinnar og lífsins þar. Í morgun vaknaði hún við að stjúpsonur hennar hringdi frá London til að athuga hvort allt væri í lagi og í framhaldinu hafði hún upp á eiginmanni sínum. Hann var þá nýkominn til vinnu og hafði verið í neðanjarðarlestinni sem fór um Maalbeek stöðina um 10 mínútum áður en sprengjan sprakk.

Sendiráðið staði sig vel við að upplýsa Íslendinga í Belgíu

Þórunn segir Íslendinga í Belgíu fá stanslausar upplýsingar frá sendiráðinu í gegnum ýmsar leiðir og að það hafi staðið sig mjög vel í að senda út upplýsingar um stöðu mála.

Þrátt fyrir að sprengingarnar hafi sprungið í morgun segir hún að þau upplifi sig núna örugg, þannig sé eiginmaður hennar í byggingu EFTA sem hafi verið lokað og börnin þeirra í alþjóðaskólum þar sem vopnaðir verðir gæti byggingarinnar. Aðspurð segir hún að atburðir síðustu vikuna hafi ekki haft áhrif á þau varðandi að flytjast frá borginni, en auðvitað hugsi menn meira heim til Íslands við svona aðstæður.

Þórunn segir að nú bíði íbúar Belgíu eftir upplýsingum frá yfirvöldum í landinu, en talið er að þau séu að funda um stöðuna.

Sprengingarnar í Brussel urðu við flugvöllinn í borginni og í …
Sprengingarnar í Brussel urðu við flugvöllinn í borginni og í Evrópuhverfinu í miðborginni.

Súrrealískt ástand

Ástandið núna er að hennar sögn nokkuð súrrealískt. Hún hafi t.d. ekki gert sér grein fyrir alvarleika málsins fyrr en hún hafi heyrt í föður sínum á Íslandi og hversu klökkur hann væri að heyra að allt væri í lagi.

Frá því árásirnar urðu í París í nóvember segir Þórunn að hermenn hafi verið mjög sýnilegir úti á götum, verslunarmiðstöðvum, flugvellinum og öðrum fjölförnum stöðum. Segir hún að þótt þar fari þungvopnaðir hermenn hafi það vakið jákvæð viðbrögð. „Það ótrúlega gerðist að þetta veitti mér öryggistilfinningu,“ segir hún og bætir við: „Atburðir morgunsins sanna að þetta var kannski bara falskt öryggi.“ Segir hún að þrátt fyrir mikinn sýnileika hermanna virðist hryðjuverkamenn komast þangað sem þeir vilji og gera það sem þeir vilji.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert