Fararsnið á góðviðrinu

mbl.is/Styrmir Kári

Það kólnar á morgun og von er á stífum vindi og vætu. Þar með lýkur þessum góðviðriskafla sem landsmenn hafa upplifað undanfarna daga. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Fremur hæg suðaustlæg átt í dag og milt í veðri, skýjað með köflum og dálitlar skúrir eða slydduél. Á morgun veður fremur stífur vindur og vætusamt. Þá sér fyrir endann á því milda veðri sem hefur verið ríkjandi undanfarið. Kólnar þegar líður á morgundaginn og annað kvöld má búast við slyddu eða snjókomu í flestum landshlutum, en slyddu eða rigningu við sjávarsíðuna. Síðan taka við norðlægar áttir með kólnandi veðri, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næsta sólarhring:

Suðaustan og austan 3-8 m/s. Skýjað með köflum og dálitlar skúrir eða slydduél. Léttir til norðanlands þegar líður á daginn, en norðaustan 5-13 og dálítil él á Vestfjörðum í kvöld og nótt. Suðvestan 8-15 m/s sunnantil á landinu á morgun og rigning eða slydda, en norðaustan 8-15 norðantil og dálitlar skúrir eða él. Víða dálítil slydda eða snjókoma annað kvöld, en rigning við ströndina. Hiti 2 til 10 stig í dag, en heldur svalara á morgun.

Á fimmtudag:
Suðvestan 8-15 m/s um landið sunnanvert og rigning eða slydda, en austan 8-13 og úrkomulítið norðantil. Slydda eða snjókoma norðan- og austantil um kvöldið, en styttir að mestu upp um landið suðvestanvert. Hiti 0 til 5 stig að deginum.

Á föstudag:
Norðaustlæg átt 8-15 m/s. Él norðantil á landinu, en rigning eða slydda um tíma sunnanlands. Heldur hvassara norðvestantil síðdegis. Hiti um og yfir frostmarki.

Á laugardag:
Ákveðin norðan átt og él, en léttir heldur til um landið suðvestanvert. Frost víða 0 til 5 stig, en hiti 0 til 5 stig sunnantil.

Á sunnudag og mánudag:
Norðlæg átt og él, en þurrt og bjart að mestu sunnan- og vestanlands. Kalt í veðri.

Á þriðjudag:
Norðaustlæg átt og víða dálítil él og áfram kalt í veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert