Fljúgandi skíðakappar á Akureyri

Davíð vonast eftir betra veðri en síðustu ár.
Davíð vonast eftir betra veðri en síðustu ár. Ljósmynd/ IGW

Skíðakappar munu fljúga um loftin á Akureyri þessa páskahelgi þar sem Íslensku vetrarleikarnir (IWG) fara fram. Keppt verður í ýmsum óvenjulegum vetraríþróttagreinum á leikunum auk þess sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir gesti og gangandi.

Meðal þeirra greina sem keppt verður í er freeski - þar sem skíðandi ofurhugar renna sér af háum pöllum og leika listir sínar í loftinu - reiðhjólakeppni í Hlíðarfjalli og snjóblak í Kjarnaskógi.

„Svo verða þeir hjá Arctic heli skiing með þyrlur uppi í fjalli og munu bjóða upp á kynningu á þyrluskíðaferðum. Þá ertu kominn svona lengst inn á fjall, ekki í troðnum brekkum eða neinu,“  segir Davíð Rúnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri viðburðarstofu Norðurlands, sem útskýrir nýstárlega dagskrána fyrir blaðamanni mbl.is.

Davíð segir þyrluskíðaferðir vera vinsælar meðal ríkari ferðamanna sem vilji skíða ótroðnar slóðir í ósnertri náttúru en að í þetta skipti verði einnig boðið upp á útsýnisferðir og styttri ferðir fyrir gesti og gangandi.

„Svo erum við með „freeride“ í fyrsta skipti á Íslandi þetta árið. Þá förum við upp á Múlakollu með snjótroðara og þar verður skipti keppt í greininni. Þá gildir engu hvort menn eru á bretti eða skíðum og spurningin er bara hver fer flottast niður fjallið. Þá stökkva menn fram á klöppum eða finna sér hengju á leiðinni og koma niður hjá gamla Ólafsfjarðarmúlanum.“

Ýmsir færir skíðamenn munu sýna listir sínar.
Ýmsir færir skíðamenn munu sýna listir sínar. Ljósmynd/ IGW

„Alveg skuggalega gaman“

Davíð tekur fram að sumar keppnisgreinanna séu aðeins opnar aðilum sem vitað er að hafi yfir þeirri færni og þjálfun sem til þarf en viðburðirnir séu það fjölbreyttir að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort þá sem þátttakendur eða áhorfendur. Ferðaþjónustan á svæðinu taki við sér yfir páskana og helgina eftir, í fyrra hafi verið yfir 60 viðburðir í boði og í ár verði þeir enn fleiri.

„Það verður mikið húllumhæ, mikið af tónlist og stuði og gleði. Alveg skuggalega gaman.“

Davíð sem viðurkennir að veðrið geti enn sett strik í reikninginn og segir veðurguðina hafa gert skipuleggjendum erfitt fyrir síðustu tvö ár.

„Í fyrra lentum við í versta veðri sem kom hérna norðan heiða það árið og það var eiginlega eins þar áður. Þess vegna færðum við leikana inn á páska og nær sumri en þá verður maður stressaður með snjóleysi. Þetta virðist allt vera að takast hjá okkur en maður bíður með krosslagða fingur.“

Dagskrána í heild sinni og frekari upplýsingar um Íslensku vetrarleikana má finna á heimasíðu þeirra. Frekari upplýsingar um aðra viðburði yfir páskahátíðina má finna á viðburðasíðu mbl.is

Svona brellur eru ekkert grín.
Svona brellur eru ekkert grín. Ljósmynd/ IGW
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert