Níu sekúndur í sýknu

Sigurður Hólm lést í fangaklefa á Litla-Hrauni árið 2012. Annþór …
Sigurður Hólm lést í fangaklefa á Litla-Hrauni árið 2012. Annþór og Börkur voru sýknaðir af því að hafa valdið dauða hans. mbl.is/Brynjar Gauti

Dómarar í máli Annþórs Karlssonar og Barkar Birgissonar töldu miklar líkur á að þeir einir hafi getað verið sekir um að valda dauða Sigurðar Hólm Sigurðssonar. Sýknan byggðist meðal annars á því að ekki væri hægt að útiloka að annar fangi sem var í níu sekúndur í klefa Sigurðar hafi verið að verki.

Annþór og Börkur voru sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins í Héraðsdómi Suðurlands í dag en saksóknari hafði farið fram á tólf ára fangelsi yfir þeim. Þeir voru sakaðir um að hafa veitt Sigurði högg eða spark í fangaklefa hans á Litla-Hrauni í maí árið 2012. Áverkinn hefði valdið rofi á milta og bláæð og hann hafi látist af innvortis blæðingu.

Auk dómarans dæmdu tveir meðdómendur sem eru sérfróðir í geð-, embættis- og réttarlækningum í málinu. 

Miklar líkur á hnefahöggi eða sparki

Ekkert benti til þess að Sigurður hafi haft hæga innvortis blæðingu sem gæti skýrt það magn blóðs sem fannst í kviðarholi hans við krufningu þegar hann kom í fangelsið eða skömmu eftir komuna þangað. Dómararnir útilokuðu að atgangur við endurlífgunartilraunir eða við krufningu gætu skýrt rofið á milta hans.

Eins töldu þeir sýnt fram á að lyf sem Sigurður hafði tekið áður en hann kom í fangelsið og sem honum voru gefin gegn fráhvörfum þar hafi ekki valdið dauða hans.

Öll sérfróð vitni sem komið hafi fyrir dóminn hafi verið sammála um að rifa á miltisbláæð kallaði á verulega mikið högg. Dómararnir töldu vart mögulegt að það högg hafi getað orðið við fall í fangaklefanum án þess að aðrir áverkar sæjust á líkama Sigurðar.

„Miklar líkur benda því til þess að hann hafi fengið hnefahögg eða hnéspark í kvið á þeim tíma sem hann er inni í klefa sínum en þó er ekki hægt að útiloka að áverkinn hafi stafað af falli,“ segir orðrétt í dómnum.

Einbeittu sér mjög að Sigurði

Dómurinn taldi ljóst að Annþór og Börkur hafi „einbeitt sér mjög“ að Sigurði þegar þeir komu inn á fangagang þar sem hann var, þeir hafi gengið í humáttina á eftir honum inn í klefa hans og verið þar í tólf mínútur. Áður hafi ekkert bent til þess að Sigurður þjáðist af innvortis blæðingu.

Sé gert ráð fyrir að rofið á miltað hafi komið til við endurlífgunartilraunir þurfi enn að útskýra hvað orsakaði að hann missti meðvitund, kastaði upp og fór í hjartastopp, að mati dómaranna. Aðeins komi því til greina að hann hafi dottið í klefanum eða honum hafi verið veittur áverki á kvið í klefanum.

Var einn með Sigurði í þrjár sekúndur

Þá komi til skoðunar hvort að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna sekt sakborninganna svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa. Annþór og Börkur neiti sök og engin vitni hafi borið að þeir hafi átt hlut að máli.

Eftir að fangaverðir yfirgáfu klefa Sigurðar, sem dómurinn ætlar að hefðu brugðist við ef þeir hefðu séð að hann væri orðinn lasinn, komu aðeins þrír menn inn í klefann, Annþór, Börkur og ónefndur fangi.

Þessi síðastnefndi fangi dvaldi einn með Sigurði í klefanum í þrjár sekúndur en alls var hann þar inni í níu sekúndur samkvæmt upptökum úr öryggismyndavélum. Eftir það voru Annþór og Börkur hins vegar einir með Sigurði í klefanum í tólf mínútur.

Það að ekki sé hægt að útiloka algerlega að Sigurður hafi fallið, sem dómurinn taldi engu að síður vart mögulega orsök innvortis áverka hans, eða að ónefndi fanginn hafi á þessum níu sekúndum getað hafa veitt Sigurði áverkann var grundvöllur þess að Annþór og Börkur voru dæmdir sýknir af ákærunni.

„Að mati dómsins leikur því það mikill vafi á sekt ákærðu að þessu leyti að ekki verður hjá því komist með vísan til 108. gr., sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að sýkna ákærðu af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu,“ segir í niðurstöðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert