Stöðvaði starfsemi pókerklúbbs

Sá sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða …
Sá sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum eða fangelsi. AFP

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af einstaklingum sem eru grunaðir um að hafa stundað fjárhættuspil í húsnæði í Grafarvogi um sl. helgi. Var staðnum lokað og húsnæðið innsiglað. Enginn var handtekinn en rannsókn málsins stendur yfir.

Málið kom upp við eftirlit lögreglu, þ.e. að í húsnæðinu væri stunduð pókerstarfsemi. Þegar lögreglumenn komu á staðinn, aðfararnótt laugardags, sátu þar um 10 manns að spilum. Skýrslur voru teknar af fólki á staðnum og hald lagt á muni, m.a. fjármuni og önnur gögn. 

Meint brot varða við 183. gr. almennra hegningarlaga, en þar segir: „ Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða það að koma öðrum til þátttöku í þeim, skal sæta sektum …1) eða fangelsi allt að 1 ári, ef miklar sakir eru.“

Rannsókn málsins stendur yfir. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er ekki algengt að lögregla hafi afskipti af fólki sem er grunað um að stunda fjárhættuspil. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert