Vill setja lög um neyðarbrautina

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, vill að skoðað verði hvort setja eigi lög sem tryggi neyðarbrautina og Reykjavíkurflugvöll í sessi.

Hann segir þrjú atriði vera athyglisverð í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur um að loka skuli norðaustur/suðvestur-flugbrautinni á flugvellinum.  

„Það er í fyrsta lagið hæpið að ráðherra geti bundið ríkisvaldið og Alþingi með þessum hætti og í rauninni farið gegn því sem hefur verið samþykkt á Alþingi þar sem talað er um Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni,“ segir Höskuldur.

Neyðarbrautin á Reykjavíkurflugvelli.
Neyðarbrautin á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

„Í öðru lagi finnst mér sérstakt að dómurinn skipi ráðherra að setja skipulagreglur með ákveðnum hætti og gefi þar með bein fyrirmæli um hvernig hann eigi að haga stjórnvaldsákvörðunum sínum,“ segir hann.

„Í þriðja lagi leggur dómarinn á sig krók til að benda á að Alþingi geti sett lög um Reykjavíkurflugvöll sem myndu binda hendur sveitarstjórnarinnar.“

Höskuldur segir það næsta  í stöðunni vera að innanríkisráðherra og ríkislögmaður taki ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar. „Ég held að menn verði að skoða það mjög alvarlega. Ég tel líka að Alþingi og ríkisstjórnin eigi að skoða hvort ekki sé tímabært að setja lög sem tryggi neyðarbrautina og flugvöllinn í sessi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert