Ólöglega margir ferðamenn í bílnum

Ökumaðurinn var kærður fyrir að hafa of marga farþega.
Ökumaðurinn var kærður fyrir að hafa of marga farþega. mbl.is/Styrmir Kári

För fjögurra ferðamanna var stöðvuð af lögreglunni á Húsavík síðdegis í gær. Reyndist vera of fjölmennt í bíl þeirra og voru þeir í raun 100% fleiri en lög segja til um.

Hreiðar Hreiðarsson varðstjóri lögreglunnar á Húsavík segir í samtali við mbl.is að bifreiðin hafi verið eins konar sendibíll, þar sem tveir geti verið um borð með svefnplássi að aftanverðu.

„Hann er því auðvitað bara skráður fyrir ökumenn og farþega. En þeir höfðu tekið með sér farþega úr Keflavík norður í land og tóku svo annan á Akureyri og þeir voru bara þarna aftur í, í sendibílarýminu.

Þetta var nú bara tekið úr umferð strax og vandað um fyrir viðkomandi, eins og sagt er,“ segir Hreiðar. „En þetta eru náttúrulega kæruefni. Ökumaðurinn var kærður fyrir að hafa of marga í bílnum og þeir sem voru aftur í voru kærðir fyrir að vera ekki í bílbeltum.“

Enn áttu þá kærur eftir að fljúga.

„Þetta var bílaleigubíll, notaður sem slíkur og leigður út sem slíkur, en ekki skráður sem bílaleigubíll, heldur aðeins sendibíll. Þannig það var nóg af brotum þarna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert