Kennarar finna gríðarlegan mun

Aðsókn í nám við deildina hefur minnkað að sögn Eyvindar.
Aðsókn í nám við deildina hefur minnkað að sögn Eyvindar. mbl.is/Sigurður Bogi.

A-prófið svokallaða hefur reynst vel við inntöku nemenda í lagadeild. Þetta segir forseti lagadeildar, Eyvindur G. Gunnarsson, í samtali við mbl.is. A-prófið var fyrst haldið sumarið 2014 og segir Eyvindur að í kjölfar þess hafi starf deildarinnar batnað til muna.

„Við höfum séð ofboðslega mikinn mun í brottfallstölum og ég held að það sé bara nauðsynlegt, í háskólaumhverfinu eins og það er í dag, að deildir hafi svigrúm til að velja nemendur sem ráða við það nám sem þeir hafa sótt um.“

Enginn „numerus clausus“

Aðsókn í nám við deildina hefur minnkað aðeins að sögn Eyvindar. Það breyti því þó ekki að deildin fái ennþá inn mjög góða nemendur.

„Sterku nemendurnir láta þetta ekki hafa nein áhrif á sig. Það er ekki eins og þetta sé einhver numerus clausus í læknadeildinni, heldur er verið að kanna hvernig fólk stendur og svo er mjög stór hópur sem kemst inn. Við höfum passað okkur á því og svo auðvitað þreyta menn próf í almennri lögfræði á fyrstu önninni.“

Eyvindur segir mikla fylgni vera á milli frammistöðu á prófinu og velgengni nemenda í námi síðar meir.

„Þeir nemendur sem ná góðum árangri á A-prófinu, þeim gengur vel í laganámi. Við sjáum mjög flotta fylgni þar á milli. Og þó ein eða tvær spurningar í prófinu geti verið rangar þá skara sterkari nemendur alltaf fram úr þegar á heildina er litið, rétt eins og í öðrum prófum.“

Vísar hann þar til gagnrýni sem Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, varpaði fram á síðu sinni um helgina.

Frétt mbl.is: Setur spurningarmerki við A-prófið

Eyvindur G. Gunnarsson forseti lagadeildar HÍ.
Eyvindur G. Gunnarsson forseti lagadeildar HÍ. mb.is/Sverrir

Háskólaumhverfið undirfjármagnað

Hann segir eðlilegt að gera deildum, sem hafa miklar kröfur, kleift að halda inntökupróf.

„Þetta er eini raunhæfi mælikvarðinn sem hægt er að nota. Auk þess hlýtur það að vera háskólanum kappsmál að hafa eðlilegt hlutfall nemenda og kennara, sem þá getur stutt við fjölbreyttari kennsluhætti, betra nám og einfaldlega betri nemendur. Við verðum að gera breytingar í þessu háskólaumhverfi. Það er gjörsamlega undirfjármagnað.“

Þá segir hann kennara hafa fundið mikinn mun á síðustu tveimur árgöngum, en nemendur þeirra árganga þurftu að þreyta inntökuprófið.

„Þeir finna gríðarlegan mun við kennslu á fyrsta og öðru árinu. Bæði eru hóparnir minni og þeir eru sterkari, sem skiptir líka máli upp á þá athygli sem hægt er að veita hverjum nemanda. A-prófið hlýtur að vera komið til að vera ef við viljum halda uppi gæðum í háskólastarfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert