Frábært færi í Hlíðarfjalli

Um tvöþúsund manns eru staddir í Hlíðarfjalli en búist er …
Um tvöþúsund manns eru staddir í Hlíðarfjalli en búist er við talsverðri fjölgun í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Hér er allt fullt af fólki og mikil og góð stemning,“ segir Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls. Hann segir að nú séu komnir um tvö þúsund manns í brekkurnar en gerir ráð fyrir talsverðri fjölgun fram eftir degi. „Það snjóaði aðeins í nótt og setti flotta mjöll ofan á gamla snjóinn sem er búinn að vera að bráðna síðustu daga þannig að færið er frábært.“

Guðmundur Karl segir föstudaginn langa og páskadag oft vera vinsælustu skíðadagana yfir páskana en það fari þó alltaf svolítið eftir veðri. Hann segir allt hafa gengið eins í sögu hingað til þrátt fyrir mikinn fjölda í fjallinu. „Það gerði gæfumuninn í nótt að fá þennan snjó. Hér er næstum því orðið heiðskírt og því skín sólin líka.“

Opnað var í fjallinu klukkan níu í morgun og verður opið til fjögur í dag.

Hér að neðan má sjá veðurspána í Hlíðarfjalli yfir páskana

Föstudagurinn langi 25. mars
Gengur sennilega í N-átt með kólnandi veðri og éljagangi. Léttir heldur til þegar frá líður. Frost 4 til 7 stig.

Laugardagur 26. mars og páskadagur
NA-átt lengst af fremur hæg gola og með henni eitthvað um él, en kaflar á mill þar sem sólin nær í gegn. Frost 5 til 7 stig á morgnana, en 3 til 4 stig yfir daginn.

Annar í páskum, 28. mars
Breytingar í uppsiglingu og mildara lofti er spáð norður fyrir land. Hugsanlega gerist það ekki fyrr en á þriðjudag og þá heldur meiri gola með snjókomu og síðar slyddu.

Úr Hlíðarfjalli.
Úr Hlíðarfjalli. Ljósmynd/Akureyrarstofa/Auðunn Níelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert