Hefur umfjöllun fjölmiðla úrslitaáhrif?

Dega fjölskyldan fær ekki hæli hér á landi og verður …
Dega fjölskyldan fær ekki hæli hér á landi og verður vísað úr landi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Dega fjölskyldan frá Albaníu fékk neitun síðastliðinn þriðjudag um frestun brottvísunar. Fjölskyldunni var synjað um hæli þann 14. október í fyrra og var sú ákvörðun staðfest af kærunefnd útlendingamála stuttu eftir áramót.

Sem stendur er óljóst hvenær brottvísunin fer fram. Fjölskyldan flúði frá Albaníu á síðasta ári sökum ofsókna vegna stjórnmálaskoðana og stjónmálaþátttöku föðurins og vegna lélegrar geðheilbrigðisþjónustu fyrir elsta soninn sem glímir við geðsjúkdóm.

Björg Valgeirsdóttir, lögmaður Dega fjölskyldunnar, furðar sig á þessari niðurstöðu um synjun á dvalarleyfi þar sem að önnur albönsk fjölskylda, Telati fjölskyldan, fékk dvalarleyfi í janúar af mannúðarástæðum vegna sérstakra tengsla við landið. Hún segir erfitt að bera saman málin tvö þar sem kærunefnd útlendingamála hafi enn ekki birt úrskurð sinni í máli Telati fjölskyldunnar. Björgu finnst líklegt að það ráði úrslitum hér hversu mikla athygli Telati fjölskyldan fékk í fjölmiðlum í aðdraganda ákvörðunar kærunefndar í útlendingamálum. 

„Dega fjölskyldan hafði engan áhuga á því að vera flagga sínu máli í fjölmiðlum og treysti því að stjórnvöld gætu komist að réttri niðurstöðu. Það var ekki fyrr en þau voru búin að fá neikvæða niðurstöðu að þau opinberuðu sig, sama dag og tilkynnt var um að Telati fjölskyldan fengi dvalarleyfi hér á landi.“

Gríðarlega viðkvæmar persónuupplýsingar

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður kærunefndar útlendingamála, segist ekki geta rætt um einstök mál og því geti hann ekki skýrt í hverju munurinn liggi í þessum tveimur málum. Þá segir hann skylduna til að birta úrskurði ekki afdráttarlausa.

„Það sem við höfum í huga þegar við metum hvort birta eigi úrskurði eða ekki er hvort það megi lesa úr úrskurðinum hvaða einstaklinga er um að ræða.“ Hann segir að þar sem að sum mál fari í fjölmiðla og önnur ekki sé nefndin hikandi við að birta úrskurði í þeim málum sem hafa verið áberandi í fjölmiðlum.

Þá bætir Hjörtur Bragi því við að úrskurðir séu yfirleitt ekki birtir samstundis og því sé ekki unnt að fullyrða neitt um það hvort úrskurðurinn í máli Telati fjölskyldunnar verði birtur síðar eða ekki. „Í raun verður þó erfitt að ætla að bera úrskurðina saman þar sem að allar viðkvæmar persónuupplýsingar eru teknar út.“ Hann segir úrskurðina yfirleitt ráðast af afar viðkvæmum upplýsingum sem er þá gjarnan búið að taka út.

Hjörtur Bragi ítrekar að um gríðarlega viðkvæmar persónuupplýsingar sé að ræða sem ekki er unnt að ræða um. „Þannig ef menn segja að við séum að höndla sams konar mál á ólíkan hátt þá getum við ekki varið okkur. Við verðum bara að taka því þó við vitum betur.“ Þá bendir hann á að ef fólk er ósátt við niðurstöður nefndarinnar sé hægt að fara með málið fyrir dómstóla og krefjast ógildingar.

Frétt mbl.is - Fjölskyldunni verður vísað úr landi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert