Flottustu eldhúsin hafa farið á yfir 20 milljónir

Eyjólfur Baldursson á og rekur Eirvík með eiginkonu sinni Þórdís …
Eyjólfur Baldursson á og rekur Eirvík með eiginkonu sinni Þórdís Sigurgeirsdóttur mbl.is/Styrmir Kári

 Uppsveiflunni í efnahagslífinu svipar á margan hátt til uppgangsins fyrir bankaáfallið 2008. Þetta er mat Eyjólfs Baldurssonar sem rekið hefur fyrirtæki sitt, Eirvík, frá árinu 1991. Minna er þó um að fólk kaupi tæki og innréttingar á raðgreiðslum eða eftir áþekkum leiðum. Hann segir að lítið framboð en mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði letji verktaka að velja vönduð heimilistæki í nýbyggingar.

Eyjólfur Baldursson, sem oftast er kenndur við Eirvík, hefur ásamt Þórdísi Sigurgeirsdóttur, konu sinni, rekið verslun sína í aldarfjórðung og tekist á við fleiri en eina upp- og niðursveiflu á þeim tíma. Hann segir gengi fyrirtækisins endurspegla ótrúlega vel hvernig gangverk efnahagslífsins er stillt á hverjum tíma. Eirvík er fjölskyldufyrirtæki því í dag starfa tvö barna þeirra hjá fyrirtækinu ásamt foreldrum sínum og fleira starfsfólki.
Af vef Eirvíkur

„Við byrjuðum í þessum bransa árið 1991. Þá var áherslan á lyftur og iðnaðarhurðir þó heimilistækin hafi einnig komið snemma inn. Þremur árum síðar varð niðursveifla í hagkerfinu. Þá skiptum við fyrirtækinu upp þar sem annar hluti þess hélt utan um heimilistæki en hitt sinnti áfram verktökum. Við seldum síðarnefndu starfsemina frá okkur og veðjuðum á heimilistækin og einstaklingsmarkaðinn. Frá upphafi var þetta sérverslun sem lagði sérstaka áherslu á gæði. Það helgast af því að umboðin sem við erum með og hafa fylgt okkur alveg frá upphafi eru mjög öflug. Fyrst voru það merki á borð við Miele og Smeg. Í gegnum tíðina hafa svo bæst við fleiri merki, kælitækjamerkið Liebherr, Magimix, Jura og fleiri.“

Mikið átak að halda fyrirtækinu á floti

Nú eruð þið búin að vera í þessu í aldarfjórðung og hafið væntanlega þurft að súpa marga fjöruna. Hvernig hafa síðustu ár leikið ykkur?

„Tölurnar milli ára frá hruni hafa ekki alltaf verið þær bestu. Þetta hefur gengið upp og niður. Það hafa komið sæmilega góð ár og önnur ekki. Við höfum viljað segja það að hrunið birtist ekki eins og hátt fall beint niður og svo bein leið upp af botninum. Það liggur djúpur dalur þarna á milli og hann er ekki sléttur. Hann er í raun hrufóttur. Þannig hafa komið tímabil á hverju ári sem hafa verið ánægjuleg og maður hefur haldið að hlutirnir væru farnir að snúast með jákvæðum hætti. Svo hafa komið bakslög og tímabil þar sem ekki hefur gengið eins vel.“

Stóð þetta tæpt í kjölfar hrunsins?

„Við lentum eins og aðrir í innflutningi í gríðarlegu gengissigi. Allar skuldir hækkuðu, bæði erlendu lánin og önnur. Við keyrðum á bakkann og ákváðum að draga saman seglin og laga reksturinn að breyttum veruleika. Valið stóð í raun á milli þess að grípa til drastískra aðgerða af þessu tagi eða senda fyrirtækið einfaldlega í þrot. Sem betur fer völdum við fyrri kostinn en við höfum þurft að leggja mjög hart að okkur.

Við gátum ekki hækkað verð því við erum eins og aðrir samkeppnisaðilar okkar háð því sem er að gerast á markaðnum. Ef við hefðum hækkað verð þá hefði fólk einfaldlega keypt vörurnar að utan eða samkeppnisaðilar hrifsað til sín stærri hlutdeild af markaðnum. Við hins vegar fórum út í að fækka starfsfólki. Það var mjög sársaukafullt en þar lögðum við höfuðáherslu á að halda í sérþekkingu og þá sem best gátu sinnt viðskiptavinum okkar. Við drógum líka saman í húsnæði, minnkuðum við okkur í því og þá lokuðum við líka verslun sem við höfðum opnað á Akureyri.“

Hvernig gekk að halda umboðunum? Voruð þið í hættu á að missa þau?

„Nei, það er ekki hægt að halda því fram. Við erum í mjög góðum tengslum við þessi umboð og í mörgum tilvikum er einfaldlega hægt að tala um vináttu milli okkar og þeirra sem eru tengiliðir okkar úti. Við mættum þess vegna miklum skilningi. Það breytir ekki því að ýmislegt breyttist. Sumir fóru út í að gæta mjög vel að því að það væri opin bankaábyrgð sem hægt væri að ganga að. Aðrir treystu okkur algjörlega og meira að segja höfum við lent í því að taka inn ný umboð eftir hrun og þeir hafa ekki einu sinni óskað eftir ábyrgðum.

Skemmtilegasta dæmið um það hvernig þessi mál þróuðust tengist einu sterkasta umboðinu sem við erum með. Þegar viðskiptabanki okkar féll kallaði umboðið eftir svörum um hvort ábyrgðin væri í gildi. Við fullvissuðum þá um að nýi bankinn hefði tekið hana yfir og pappírar frá bankanum staðfestu það. Traustið á bankanum var þó ekki meira en það að framleiðandinn úti vildi hafa nafnið mitt á skjölum bankans einnig, honum þótti það traustara en að stóla bara á bankann.“

En hvað með uppsveifluna nú? Svipar henni til þess sem þið upplifðuð áður en ósköpin gengu yfir?

„Breytingarnar núna eru margar hverjar líkar því sem þá var. Fyrst sjáum við dýra og fína bíla birtast á götunum eftir nokkurt hlé. Við sjáum líka að fólk er að gera meira fyrir sig til skemmri tíma. Það sést á því að fólk er að kaupa vandaða staka hluti. Það geta verið sjónvörp, vínkælar eða ný þvottavél og þurrkari í þvottahúsið. Svo sjáum við fólkið ekki aftur fyrr en eftir ákveðinn tíma. Þá sjáum við fólk koma í meira mæli og velta fyrir sér heildstæðum lausnum fyrir eldhús. Það má kannski orða það þannig að fólk er farið að láta sig dreyma aftur og velta fyrir sér hvað það langar í. Við upplifum líka mikla uppsveiflu í því að fólk kemur til okkar sem lætur teikna fyrir sig nýtt eldhús. Slíkt sáum við í mun minna mæli í niðursveiflunni.

Annað sem er keimlíkt er hraðinn. Það er svipað og var í uppsveiflunni fyrir hrun. Það þarf allt að gerast einn tveir og þrír og biðlundin er minni. Fólk ætlast til að allt sé til á lager og þá sjáum við líka að þar sem við erum búin að gera tilboð í pakka, til dæmis í eldhús, og þá líður lengri tími frá því að fólk fær tilboðið í hendurnar og þar til það kemur og vitjar vörunnar. Það tengist því eflaust helst að það er orðið erfitt að fá iðnaðarmenn til starfa og það tekur einfaldlega lengri tíma en ella að þoka hlutunum áfram og á það stig að hægt sé að koma innréttingum og tækjum á sinn stað. Einkenni þenslunnar eru mjög víða.“

Af vef Eirvíkur

Fólk fer varlega í sakirnar

Eru þetta jafn dýr tæki og er krafturinn eins mikill?

„Bæði og. Margir eru brenndir og vita hvað hlutirnir kosta þegar upp er staðið. Það er mun meira um það núna að fólk borgi einfaldlega vöruna sem það kaupir og mun minna um raðgreiðslur og samninga eins og voru mjög algengir. Slíkt sést nánast ekki í dag. Fólk virðist eiga meira fyrir hlutunum en á árunum fyrir 2008.“

Er þetta jafn stór hópur og fyrir hrun?

„Hann er aðeins minni en hann á væntanlega eftir að stækka eitthvað á næstu tveimur til þremur árum. Það hefur vantað dálítið upp á að millitekjuhóparnir geri vart við sig. Það hefur reyndar lagast töluvert en á árunum 2012 til 2015 var það mjög áberandi að það voru fyrst og fremst þeir sem höfðu meira á milli handanna sem fóru út í framkvæmdir.

Þegar talað er um kaupmáttinn þá er það rétt: Hann hefur eflaust sjaldan eða aldrei verið meiri en akkúrat núna en það er eins og að kaupgetan láti standa aðeins meira á sér. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður, bæði það að fólk fer varlega í sakirnar en einnig er fólk að nýta aukinn kaupmátt til annarra hluta. Það sést til dæmis í auknum sparnaði en tölur sýna það. Einhverjir hafa klárlega lært af hruninu.

Þá vantar líka unga fólkið og það er vont að sjá að sá hópur er ekki að taka nægilega við sér. Hann lætur miklu minna eftir sér en var. Það tengist mögulega því að þeir sem eru að flytjast úr foreldrahúsum í dag eru ekki í jafn miklum mæli að kaupa sér eignir og var í síðustu uppsveiflu en það kann auðvitað að breytast með jákvæðum efnahagshorfum.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert