Veðrið hluti af stemningunni

Heimamaðurinn Mugison var sem fyrr í sviðsljósinu á Aldrei fór …
Heimamaðurinn Mugison var sem fyrr í sviðsljósinu á Aldrei fór ég suður í gær. Ljósmynd/Hall­dór Svein­björns­son

Tónleikagestir á Aldrei fór ég suður hátíðinni létu ekki sjáanlega á sig fá þó talsverður vindur með tilheyrandi skafrenningi hafi leikið um norðvestanvert landið í nótt og áfram í dag, að sögn rokkstýru hátíðarinnar Birnu Jónasdóttur. Allt stefnir svo í aðra vel heppnaða tónleika í kvöld.

Fyrri frétt mbl.is með myndasyrpu: Húsið troðfylltist á 20 mínútum

„Þetta er kannski skítaveður miðað við sumarið sem er búið að vera síðustu tvær vikurnar en fyrir mars er þetta held ég venjulegur vindur og smá úrkoma, ekki mikið meira en það,“ sagði Birna sem tók hóflega í lýsingar sunnlensks blaðamanns mbl.is á meintu óveðri á Vestfjörðum.

„Ég held að flestir geri sér grein fyrir því að þegar þeir mæta á tónleika á Vestfjörðum á miðjum vetri þá þurfa þeir að hafa húfu og vettlinga og mér sýnist flestir vera sæmilega búnir. Enda er það kannski partur af stemningunni í kringum hátíðina,“ sagði Birna.

Tónlistarmenn kvöldsins eru allir komnir á svæðið utan einnar hljómsveitar sem er væntanleg seinni partinn. „Skemman er klár frá því í gær þannig að við erum bara í stuði og ég vona að þetta verði jafn gaman og í gær.“

Fylgjast má með tónleikunum í kvöld á netinu, á heimasíðu hátíðarinnar og á Ruv.is.

Auglýst dagskrá er svohljóðandi:

20:00 GKR
20:40 Emiliana Torrini
21:20 Úlfur Úlfur
22:00 Risaeðlan
22:40 Tonik Ensemble
23:20 Sykur
23:55 Bjór

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert