Á heimssiglingu í 15 mánuði

Myndin er tekinn á um borð í Hug á 40 …
Myndin er tekinn á um borð í Hug á 40 ára brúðkaupsafmæli þeirra hjóna á eyjunni Fatu Hiva í Marquesas eyjaklasanum. Eyjan er af mörgum talin sú fegursta í Kyrrahafi. Langt utan allra skipaleiða og lengst af án samgangna við umheiminn. Thor Heyerdal dvaldist þar ásamt konu sinni 1936 í sínum fyrsta Kyrrahafsleiðangri. Mynd/Kristófer Oliversson

Undanfarna 18 mánuði hafa hjónin Kristófer Oliversson og Svanfríður Jónsdóttir siglt umhverfis jörðina á seglskútunni Hug frá Reykjavík, en þar af hafa 15 mánuðir verið í „World Arc – Around the World rally“ keppninni. Upphaflega lögðu 27 skútur upp í ferðina, en að lokum voru aðeins 6 eftir í keppninni, þar á meðal Hugur. Meðan á keppninni stóð fögnuðu þau bæði stórafmæli sínu og héldu upp á 40 ára brúðkaupsafmæli.

Á leiðinni lentu þau í allskonar hremmingum, meðal annars þegar að skautið af stórseglinu rifnaði og þegar þau rétt sluppu við allt að 50 hnúta hvassviðri með að komast inn fyrir lítið kóralrif á Kyrrahafi. Þá hafa þau siglt í gegnum svæði sem eru þekkt fyrir sjórán. Á sama tíma hefur Kristófer náð með nútímatækni að sinna vinnu sinni, en hann er eigandi og forstjóri Centerhotels í Reykjavík. Hann segir það þó aðeins hafa tekist með góðri aðstoð þeirra sem stýrðu daglegum rekstri meðan á ferðalagi þeirra hjóna stóð.

Öll frí og ferðalög farið í siglingar

Kristófer segist hafa tengst sjónum lengi, en hann fór fyrst sem háseti á sjó í Norðursjónum árið 1969, þá 14 ára gamall. Öll skólaárin hafi hann svo tekið einn og einn netatúr á veturna til að rétta við fjárhaginn. Síðar átti hann lítinn plastbát með utanborðsmótor sem hann gat notað til að ná í soðið.

Það var svo seint á síðustu öld sem Svanfríður fékk hann til að taka með sér pungaprófið og fara á námskeið í siglingaskóla Benedikts Alfonssonar þar sem þau lærðu skútusiglingar. Í kjölfarið keyptu þau skútuna Nornina ásamt nokkrum félögum, en hún er 28 feta löng. Síðan þá segir Kristófer að öll frí og ferðalög hafi verið tengd siglingum og að þau hafi meðal annars keypt sér lítinn hlut í skútu sem staðsett er í Miðjarðarhafinu.

Mynd sem tekin var af Hug í hægum vindi á …
Mynd sem tekin var af Hug í hægum vindi á Atlantshafinu tæpar 5000 sjómílur suður af Reykjavík og ca 1000 mílur austur af Brasilíu. Mynd/Kristófer Oliversson

Það var svo árið 2012 sem dóttir þeirra hjóna skipulagði skútusiglingu fyrir þau um skosku eyjarnar, en það reyndist vera „Malt Cruise“ á vegum samtakanna World Cruising Club (WCC). Kristófer segir að þarna sé siglt í góðum félagsskap með 30 öðrum skútum, á milli helstu viskíbrugghúsa skosku eyjanna þar sem tekið sé á móti fólki með sekkjapípuleik og viskísmakki.

Í þessari ferð kynntust þau eigendum, starfsmönnum og stjórnendum WCC. Allt er þetta mikið siglingafólk og  það hafi kveikt hjá þeim áhugann á hnattsiglingunni sem einnig er á vegum WCC. Kristófer segir að eftir hrunið hafi skútur verið á spottprís víða um heim og að þau hafi fljótlega fundið vel búna sænska skútu af gerðinni Najad sem var byggð árið 1998. Skútan er 51 fet að lengd og hafði áður farið hringinn í kringnum jörðina. Létu þau drauminn rætast og keyptu skútuna og fóru að undirbúa hnattsiglinguna.

Heimssigling á heilmiklum tímamótum

Kristófer segir að árið 2015 hafi verið valið af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi áttu þau bæði sextugs afmæli það árið og þá áttu þau 40 ára brúðkaupsafmæli. Sjálfur var Kristófer búinn að vera í hótelbransanum í yfir 20 ár og þar af segist hann hafa átt í 5 ára deilum við Landsbankann um hótelkeðjuna. „Í einhverjum bríma sem rann á bankamennina eftir hrun, vildi bankinn hirða af okkur bæði fyrirtæki og fasteignir, en þeim lukkaðist það ekki,“ segir Kristófer. „Þannig að á öllum þessum tímamótum tókst konunni einhvern veginn að telja mér trú um að við ættum þetta skilið,“ bætir hann við.

Þau hófu formlega siglingu ásamt 50 öðrum skútum frá Kanaríeyjum 20. nóvember 2014 í svokallaðri Arc+ ferð þar sem siglt var yfir Atlantshafið til St. Lucia í Karabíska hafinu með viðkomu á Grænhöfðaeyjum. Var verðlaunaafhendingin 20. desember, en sjálf hnattsiglingin hófst svo 21 degi seinna frá Rodney Bay á St. Lucia.

Komu við á fjölda framandi staða

Keppnin samanstendur af 16 leggjum, en verðlaunaafhending er eftir hvern legg og ákveðin tímamörk. Þeir sem ekki ljúka keppni innan tímamarkanna detta úr leik fyrir þann legg. Fyrri hlutinn er 8 leggir frá St. Lucia í gegnum Panamaskurðinn til Galapagoseyja yfir Kyrrahafið til Frösnku Polynesíu, Bora Bora, Suwarrow, Niue, Tonga, Tonga, Fiji, Vanuatu, og svo til Ástralíu fyrir ágúst sama ár.

Frá Suwarrow kóralrifinu í Kyrrahafi. Kristófer og Svanfríður þurftu að …
Frá Suwarrow kóralrifinu í Kyrrahafi. Kristófer og Svanfríður þurftu að leita þar skjóls í miklu hvassviðri. Mynd/Wikipedia


Seinni hlutinn er svo frá Ástralíu til Cocos Keeling eyja og þaðan til Mauritus og Reunion eyja. Þaðan var farið til Suður Afríku og yfir Atlatnshafið til Brasilíu og upp meðfram Suður-Ameríku í Karabíska hafið að nýju og endað í Grenada. Leggirnir eru allt  frá því að vera 130 sjómílur upp í rétt tæplega 3.000 sjómílur þegar siglt var frá Galapagos til Frösnku Polynesíu.

Kristófer tekur fram að þó formlega sé um keppni að ræða sé mikið lagt upp úr skemmtanagildinu og þannig hafi þátttakendur oft nýtt frítíma milli leggja til að fara sameiginlega í styttri siglingar eða notið lífsins. Reyndin hafi þó verið sú að mestur tími milli leggja hafi farið í viðgerðir og undirbúning fyrir næsta legg.

Straumar og veður eins og járnbrautalestir um hafið

Aðspurður um hættulegasta kafla ferðarinnar segir Kristófer að sá leggur sem hafi reynt mest á þátttakendur hafi verið frá Reunion til Richards Bay í Suður-Afríku. Segir hann þetta vera meðal hættulegustu siglingasvæða í heiminum, en með austanverðri Afríku kemur mjög sterkur straumur sem kallast Agulhas-straumurinn. Á móti honum frá suðri til norðurs ganga svo yfir mjög krappar lægðir og líkir Kristófer þeim við járnbrautalestir sem þjóti yfir hafið. Þegar þessir vindar og straumar mætast úr gagnstæðri átt verður til fyrirbæri sem er kallað „freakwaves“ en það myndar brotsjói sem geta verið bátum hættulegur.

Leiðin var sigld í nóvember í keppninni og segir Kristófer að keppnin hafi verið blásin af á þessum legg og dagsskipunin verið að komast heilu og höldnu í höfn frá þessari 8-12 daga siglingu.

Margir bátar lentu í tjóni á leiðinni, meðal annars fékk áströlsk tvíbytna yfir sig brot þannig að húsið hreinlega losnaði frá bolnum og þá laust eldningu niður í þýskan bát sem eyðilagði allt rafkerfi og rafbúnað um borð. Segl og mastursstög slitnuðu á öðrum báti og skemmdir urðu hjá fleirum. Kristófer segir að á Hug hafi skautið af stórseglinu rifnað og verið óbrúklegt og þá hafi farið að leka með stýrisöxlinum sem hafi valdið því að þau misstu stýri í einhvern tíma. Öllum hafi þó tekist að gera við til bráðabirgðar á hafi úti og komast í höfn.

Eitt af verri veðrum ferðarinnar var þó á leggnum frá Bora Bora til Niue í Kyrrahafi. Suwarrow var viðkomustaður, en það er lítið hringlaga kóralrif með þröngri innsiglingu. Kristófer segir að 40-50 hnúta hvassviðri hafi skollið á rétt eftir að þau komust í var, en margir aðrir hafi hrakist undan rokinu.

Komu við á einum síðasta mannætustaðnum

Fyrir tæplega tveimur vikum komu þau Kristófer og Svanfríður í mark á Grenada eftir þetta 18 mánaða ferðalag sitt, en enn eru um 3 mánuðir í að þau komi til Íslands. Kristófer segir að þau muni ásamt þremur öðrum skútum nú sigla til Ameríku með viðkomu á Bermúda og þaðan fara til Nýfundnalands, áfram til Grænlands og svo til Íslands. Segist hann helst vilja vera kominn heim í júní, en hafís og veður ráða för.

Hugur var fyrsti bátur í mark yfir Atlantshafið og í …
Hugur var fyrsti bátur í mark yfir Atlantshafið og í 3ja sæti þegar búið var að taka tillit til forgjafar. Myndin er af áhöfninni á Hug, Svanfríði Jónsdóttir og Kristófer Oliverssyni að taka við verðlaunum í Salvador í Brasilíu. Þetta var langur leggur, um 3.600 sjómílur, frá Höfðaborg í S. Afríku til Salvador í Brasilíu. Stutt stopp var gert á St. Helenu á ca miðri leið. Mynd/Kristófer Oliversson

En hvað var áhugaverðasti staður ferðarinnar? Kristófer segir að það hafi verið einstaklega skemmtilegt að koma á afskekktari staði í Kyrrahafinu þar sem móttökur hafi verið mjög vingjarnlegar. Uppáhaldsstaðurinn sé samt Marquesas eyjar í Kyrrahafi þar sem innfæddir færðu þeim gjarnan ávexti þegar þau stigu á land og sögðu þeim að nóg væri fyrir alla til að taka af trjánum. Þá  væri einnig áhugavert að þetta væri sá staður í heiminum þar sem einna styðst væri síðan fólk hætti mannáti og að rök heimamanna fyrir því að það hefði verið eðlilegt væru forvitileg. „Það var jú ekkert kjöt að hafa á eyjunum,“ segir Kristófer.

Fyrsta skútan undir íslensku flaggi að fara umhverfis jörðina

Kristófer og Svanfríður eru ekki fyrstu Íslendingarnir til að sigla hringinn í kringum jörðina, en Hafsteinn Jóhannsson sigldi árið 1991 einn síns liðs umhverfis hnöttinn viðstöðulaust í 241 dag, alls 25 þúsund sjómílur. Er hann enn eini Norðurlandabúinn til að afreka það. Hafsteinn hefur aftur á móti verið búsettur í Noregi um áratugaskeið og sigldi undir norskum fána. Kristófer segir hins vegar að  Hugur sé fyrsta skútan sem siglir umhverfis jörðina undir íslensku flaggi.

Í keppninni sem þau tóku þátt í núna var þó einnig önnur íslensk kona. Skipstjóri sænsku skútunnar Ayama er Stefan Berg, fyrrum framkvæmdastjóri tæknisviðs TetraPack í Svíþjóð. Kona hans sem einnig sigldi með honum í keppninni er Anna Þorvaldsdóttir Berg frá Akureyri, en hún flutti ung til Svíþjóðar.

Tilhlökkun að koma aftur heim til Íslands

Keppninni lýkur formlega í byrjun apríl, en þá verður safnast saman í Marigot Bay á St Luciu og 9. apríl verður hópsigling þar sem allar skúturnar sigla fánum skrýddar frá Marigot Bay inn næsta flóa og framhjá höfuðborginni Casterius og upp til Rodney Bay þar sem sem allir fara saman yfir síðustu marklínuna, svona til að undirstrika það að allir sem ljúka siglingunni umhverfis jörðina eru sigurvegarar. Deginum líkur svo með lokahófi og verðlaunaafhendingu.

Aðspurður hvort þau séu ekki komin með nóg af siglingum í bili þverneitar Kristófer fyrir það og segir margt spennandi bíða bæði heima, í Skandinavíu og víðar. Eftir heimkomuna tekur svo við starfið í ferðaþjónustunni, en Kristófer segist spenntur að snúa heim á ný, enda sé raunin sú að í greininni og hjá Centerhotels starfi skemmtilegt starfsfólk, svo það sé mikið tilhlökkunarefni að koma aftur á skrifstofuna.

Hægt var að fylgjast með skútunum í rauntíma á siglingunni …
Hægt var að fylgjast með skútunum í rauntíma á siglingunni um heiminn. Hér eru þau undan strönd Brasilíu fyrir tæplega þremur vikum. Mynd/WCC
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert