Hátt í 10 bílar fastir á Hólasandi

Mynd úr safni
Mynd úr safni mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

 Í nótt og í dag hafa björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Dalvík, Hólmavík, Mývatni og Seyðisfirði verið kallaðar út vegna ökumanna sem fest hafa bifreiðar sínar. Um tvöleytið fóru björgunarsveitarmenn frá Mývatni á leið til aðstoðar á Hólasandi þar sem hátt í 10 bifreiðar eru fastar.

„Rétt er að benda á að víða er þungfært og einhverjir vegir lokaðir. Bent er á að kanna aðstæður vel áður en lagt er í hann þar sem víða á landinu verða erfiðar ferða aðstæður í dag og á morgun,“ segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Á Norðurlandi vestra eru sums staðar hálkublettir en þó er hálka og skafrenningur á Þverárfjalli og  Siglufjarðarvegi. Það er hálka og skafrenningur á Öxnadalsheiði  en við Eyjafjörð og þar fyrir austan er vetrarfærð, hálka eða snjóþekja og skafrenningur víða, sums staðar jafnvel þæfingur. Ófært er yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi.

Hálka eða snjóþekja er víða á Austurlandi, éljagangur og skafrenningur. Slæmt veður er á Fjarðarheiði og heiðin ófær. Breiðdalsheiði er einnig ófær.

Vegir eru að heita má auðir um allt sunnanvert landið.

Á Vesturlandi eru vegir greiðfærir á láglendi en hálkublettir á fjallvegum, raunar hálka á Fróðárheiði.

Það er snjóþekja, hálka  eða hálkublettir á Vestfjörðum og víða skafrenningur. Ófært er norður í Árneshrepp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert