Vilja reisa auðlindagarð á Hellisheiði

Hugmyndin að auðlindagarðinum er nú í þróun hjá Orku náttúrinnar. …
Hugmyndin að auðlindagarðinum er nú í þróun hjá Orku náttúrinnar. Myndin sýnir fyrirhugaða staðsetningu auðlindagarðsins.

Hugmyndir eru uppi um að reisa auðlindagarð á Hellisheiði og er nú unnið að deiliskipulagi þar sem gert er ráð fyrir sex hekturum lands undir framkvæmdina. Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, segir mögulegt framtíðarsvæði samkvæmt skipulagi þó vera mun stærra og því hægt að stækka auðlindagarðinn hafi menn hug á.

Auðlindagarðurinn var kynntur á Vísindadegi Orkuveitunnar fyrir skemmstu, en hugmyndir gera ráð fyrir að hann verði staðsettur hægra megin við stöðvarhúsið á Hellisheiði. „Fyrirtækið hefur þá stefnu að þróa hugmynd að auðlindagarði og á þessu stigi erum við að skoða hvernig deiliskipulag geti litið út og hvaða starfsemi geti þá hentað í slíkan auðlindagarð,“ segir Páll.

Á kynningunni kom fram að Hellisheiðin sé rík af auðlindum, því þar sé aðgengi að jarðhitavatni, gufu, rafmagni, köldu neysluvatni, skipulögðu landi og svo ýmsum gerðum af jarðhitagasi. 

Hentar jafnt fyrir ylrækt sem vistvænt eldsneyti

Páll segir að auðlindagarðurinn myndi snúast um að fá inn fyrirtæki sem byggi starfsemi sína á ábyrgri nýtingu þeirra auðlindastrauma sem í boði eru. „Þetta gætu þá til dæmis verið  fyrirtæki sem eru í ylrækt eða þörungarækt, eða þá í framleiðslu á fæðubótarefnum eða vistvænu eldsneyti.“

Vistvæn eldsneytisframleiðsla myndi enn fremur  stuðla að orkuskiptum í samgöngum yfir í græna orku og það sé í anda þeirrar umhverfistefnu sem Orka náttúrunnar horfi til. „Það er í okkar anda að huga vel að svæðinu.“

Í því samhengi er m.a horft til verndar vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins, sem ekki eru langt frá. „Vernd vatnsbólanna er forgangsatriði þannig að það yrði ekki leyfð nein starfssemi inni á svæðinu sem hefði áhrif á þau.“ 

Byggingaland og frumkvöðlasetur

Gert er ráð fyrir að fyrirtæki geti fengið byggingaland í Auðlindagarðinum til að reisa í eigið húsnæði þar sem þau hefðu gott aðgengi að auðlindastraumunum.

Eins er horft til möguleikans á að reisa frumkvöðlasetur. „Ein hugmyndin sem er á borðinu er að bjóða upp á frumkvöðlasetur þar sem sprotafyrirtækjum gefst kostur á að koma og hefja sína nýsköpun og frumframleiðslu. Það er ekki búið að taka ákvörðun um þetta, en það væri óneitanlega ánægjulegt ef af því yrði.“

Orka náttúrunnar er nú þegar í samstarf við fyrirtæki sem er með starfsemi sína á Hellisheiði og segir Páll það ganga vel. „Fyrirtækið GeoSilica er þegar með starfsemi sína á svæðinu. Þeir framleiða heilsubótarvörur úr jarðvarmavökvanum og markaðssetja þessar vörur með góðum árangri út um allt land. Þetta er einmitt dæmi um fyrirtæki sem byrjaði smátt og byggir á hugmynd sem síðan verður að veruleika.“

Páll segir árið í ár verða nýtt til að þróa frekar hugmyndina að auðlindagarðinum. En að því er fram kom í kynningunni þá hefur Orkuveitan fundið fyrir miklum áhuga hjá fyrirtækjum og einstaklings hér á landi sem erlendis að koma sér upp aðstöðu á Hellisheiði.

„Þegar við verðum búin að þróa hugmyndina þá verður hún send samþykktar hjá stjórn og væntanlega tekin skref í framhaldi af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert