Draumadagur í Hlíðarfjalli

Það er gott veður og fínt færi í Hlíðarfjalli
Það er gott veður og fínt færi í Hlíðarfjalli

„Dagurinn í dag er dagurinn sem allir Akureyringar ættu að skella sér á skíði,“ segir Guðmundur Karl Jónsson, umsjónarmaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli. Þar snjóaði mikið í nótt og þar eru margir sem njóta þess að skíða í nýföllnum snjónum í sólinni í dag.

Guðmundur Karl segir að flestir hafi verið í fjallinu á föstudaginn langa en dagurinn í dag komi þar næstur þrátt fyrir að flest aðkomufólk haldi til síns heima í dag. Opið hefur verið í Hlíðarfjalli alla páskadagana og veðrið og færið gott fyrir utan páskadag. Þrátt fyrir það voru um þúsund manns í fjallinu í gær.

Þessi mynd var tekin í Hlíðarfjalli fyrr í vetur.
Þessi mynd var tekin í Hlíðarfjalli fyrr í vetur.

Að sögn Guðmundar Karls skiptir snjókoman í nótt miklu því mánuður er eftir af skíðavertíðinni í vetur. Andrés andar leikarnir eru venju samkvæmt í kringum sumardaginn fyrsta og miðað við snjómagnið í Hlíðarfjalli í dag þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að það skorti snjó þegar sumarið gengur í garð.

Það er opið í Hlíðarfjalli til klukkan 16 í dag.

Af Facebook síðu Hlíðarfjalls síðan snemma í morgun
Af Facebook síðu Hlíðarfjalls síðan snemma í morgun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert