Jörðin víða hvít eftir nóttina

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Von er á norðaustan- og austanátt í dag þar sem vindur verður á bilinu 3-10 metrar á sekúndu. Líkur eru á éljum í flestum landshlutum, einkum sunnan- og suðvestantil, en síst þó á Vesturlandi. Frost verður á bilinu 0 til 10 stig en kaldast verður norðaustantil.

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar kemur fram að heldur hvassara verði með suðvesturströnd landsins í dag, þar sem lítil lægð færir él inn á Suðurland, höfuðborgarsvæðið og Reykjanes í dag og á morgun en þar er jörðin víða orðin hvít eftir nóttina.

Von á svipuðu frosti

„Fyrir norðan og austan má einnig búast við stöku éljum, en á Vesturlandi mun að öllum líkindum haldast þurrt og líkur á björtu og fallegu veðri í kringum Snæfellsnes. Í dag verður hiti víða um frostmark við ströndina, en í nótt fór frostið í 19 stig í Gæsafjöllum. Næstu nótt má aftur eiga von á svipuðu frosti í innsveitum NA-lands,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Þá segir að á morgun verði litlar breytingar á veðrinu. Helst muni bæta í vind syðst á landinu og þá megi einnig búast við hvössum eða allhvössum vindi undir Eyjafjöllum og með suðurströndinni.

Þá muni einnig hlýna sunnan- og vestantil og gæti úrkoman breyst yfir í slyddu um tíma. Á fimmtudagskvöld er síðan von á næstu lægð með úrkomusömu hvassviðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert