Nýja flugvélin bilaði þrisvar í mars

Jómfrúarferð Bombardier Q400 flugvélar var miðvikudaginn 2. mars 2016.
Jómfrúarferð Bombardier Q400 flugvélar var miðvikudaginn 2. mars 2016.

Bombardier Q400 flugvél Flugfélags Íslands var snúið við um 20 mínútum eftir flugtak í gær og var henni lent aftur á Reykjavíkurflugvelli. RÚV greindi frá þessu í gær en þetta er í þriðja sinn sem þessi nýja vél Flugfélags Íslands bilar á þeim mánuði sem liðinn er frá því að hún fór í fyrsta áætlunarflugið hinn 2. mars sl.

Bilun varð í vökvakerfi vélarinnar í gær að sögn Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands. Hann segir að í marsbyrjun hafi bilað rafall í hreyfli og um miðjan mars hafi verið um að ræða ranglega stillta vængbarða.

Frétt mbl.is: Lenti í Keflavík vegna bilunar

„Þetta hafa verið fleiri atvik en við gerðum ráð fyrir en það má auðvitað búast við þessu með þessa flugvél eins og aðrar flugvélar. Hvort sem þær eru nýjar eða gamlar,” segir Árni.

Vélin var keypt notuð og á Flugfélag Íslands von á tveimur vélum af sömu gerð á næstu tveimur mánuðum. Árni væntir þess að vél númer tvö verði komin í fulla notkun í apríl og sú þriðja um miðjan maí.

Frétt mbl.is: Bilun í vængbörðum vélarinnar

Fyrsta vélin fór í gegnum umfangsmikið innleiðingarferli, ýmsu í henni var breytt, m.a. stjórntækjum og innréttingum. Hinar vélarnar tvær fara í gegnum sams konar innleiðingarferli að sögn Árna.

Viðgerð væntanlega lokið í kvöld

Varahlutir í vökvakerfið eru á leið til landsins en Flugfélag Íslands er með samning við Lufthansa um varahluti. Árni segir að líkur séu á því að röskun verði á innanlandsflugi seinni partinn í dag en á ekki von á því að bilunin hafi áhrif á flug næstu daga. Gert verður við flugvélina í kvöld og býst hann við því að viðgerð vélarinnar gangi hratt fyrir sig eftir að varahlutirnir koma til landsins.

Frétt mbl.is: Markar tímamót í innanlandsflugi

„Fyrir utan þessi atvik hefur flugvélin komið mjög vel út. Bæði varðandi flugtíma og eldsneytisneyslu,” segir Árni og bætir því við að reynsla vélarinnar sé betri en menn áttu von á varðandi þessa tvo þætti. „Við horfum bara björtum augum á það þegar við erum komin fyrir vind með þetta, að við séum með góðar vélar í höndunum,” segir hann spurður um framhaldið.

Um 450 vélar af tegundinni Bombardier Q400 eru í rekstri víða um heim í dag. Til að mynda eru yfir 50 vélar af tegundinni í rekstri hjá breska félaginu Flybe. Árni segir að menn hafi almennt mjög góða reynslu af vélunum og eru atvikin þrjú í mars eitthvað sem Flugfélag Íslands á ekki von á því að sjá til frambúðar.

Bókunarstaðan lítur vel út fyrir sumarið

Árni segir að sumarið líti vel út, bókunarstaðan sé góð sérstaklega í Grænlandsfluginu en einnig í innanlandsflugi. „Við erum að bæta við fimmta áfangastaðnum á Grænlandi og það er alltaf vöxtur í því að erlendir ferðamenn nýti sér innanlandsflugið,“ segir Árni. Hlutdeild erlendra ferðamanna í innanlandsflugi milli Reykjavíkur og Akureyrar nam 18 prósentum í febrúar á þessu ári. Mikið vatn hefur því runnið til sjávar síðan fyrir fimm til tíu árum þegar hlutdeild erlendra ferðamanna í innanlandsflugi var nærri 5 prósentum.

„Þetta hefur vaxið samhliða fjölgun ferðamanna hingað til lands,“ segir Árni en heilt yfir síðasta ár var hlutdeild erlendra ferðamanna í innanlandsflugi um 15 prósent.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert