Varð næstum undir flutningabílnum

Flutningabíll valt við Bolöldu í morgun þar sem bílstjórinn var að losa jarðefni en litlu munaði að annar bílstjóri yrði undir flutningabílnum þegar hann valt. „Ég er nokkrum sekúndum frá því að fá bílinn ofan á mig sjálfan,“ segir Hróar Björnsson í samtali við mbl.is.

„Ég var sjálfur að fara að sturta hlassi úr bílnum mínum, en áður en ég geri það þá þarf ég að fara út og opna hlerann að aftan,“ segir Hróar. „Ég er að ganga þaðan og aftur inn í bíl þegar höggið kemur.“

Bolalda er losunarstaður fyrir ýmis jarðefni og voru bílstjórar flutningabílanna því með öllu ótengdir. „Síðan sé ég það, þegar ég horfi inn í bílinn, að ökumaðurinn er ekki í framsætinu svo hann hefur kastast til. Ég reif bara framrúðuna úr vörubílnum og tók hann út úr bílnum og drap á honum.“

Hróar segir að ekki sé vitað hvers vegna bílinn valt.

„Mér fannst aðkoman fyrir bílinn vera þokkaleg til að sturta, það voru engar ójöfnur þannig séð. En ýtumaður á staðnum sagði að bíllinn hefði byrjað að halla um leið og hann hóf að sturta. Þetta er smá áfall svona í morgunsárið.“

Sjúkralið, lögregla og slökkvilið kom á staðinn og var maðurinn fluttur á sjúkrahús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert