Endurbyggja fjárhús við þriggja hæða helli

Þeir eru engin fuglabein bræðurnir Benjamín og Guðjón Kristinssynir enda …
Þeir eru engin fuglabein bræðurnir Benjamín og Guðjón Kristinssynir enda frá Dröngum á Ströndum. Hér líta þeir upp til fjalls þar sem þeir koma út úr fjárhúsinu sem þeir munu fljótlega ljúka við að endurbyggja.

Bræðurnir og hleðslumeistararnir Guðjón og Benjamín Kristinssynir vinna nú við að endurbyggja fjárhús undir Eyjafjöllum, en í þeirri byggingu mætast gamli tíminn og nýi. Inn af fjárhúsinu er stórmerkilegur hellir á þremur hæðum þar sem ummerki eru um að fólk hafi búið. Guðjón fór á kostum og sagði sögur.

Inn af þessu fjárhúsi er mjög merkilegur, manngerður hellir sem enginn veit hversu gamall er. Hann er stór, á þremur hæðum, og þar sjást merki um hin ýmsu byggingarstig. Hann hefur verið þiljaður af og innst í honum hefur greinilega verið höggvið úr fyrir rúmbálki. Við getum því gert ráð fyrir að margir Eyfellingar hafi komið undir hér í þessum helli,“ segir Guðjón Kristinsson hleðslumaður og hlær, en hann ásamt bróður sínum Benjamín vinnur nú að því fyrir Minjastofnun að endurgera gamalt fjárhús sem byggt var framan við helli í Hrútafelli undir Eyjafjöllum.

„Þetta hús var byggt á fjórða áratug tuttugustu aldar og er merkilegt fyrir þær sakir að gamla og nýja verkmenningin mætast í því. Ofan á mæninum voru til dæmis járnplötur, en jafnframt er þakið klætt með steinhellum á gamla mátann. Þetta var að mestu hrunið, hálft þakið stóð uppi en tréverkið var kássufúið. Upprunalega timbrið í húsinu er úr skipsflökum og rekavið, en við ákváðum að nota íslenskan skógarvið í uppistöðurnar. Brúnásarnir eru gömlu upprunalegu raftarnir og í steinhleðslunni í gaflinum er grjótið að mestu það sama og var fyrir. Þetta hefur verið tröllsleg hleðsluaðferð því þetta eru mjög stórir steinar, þrjú til sex hundruð kíló hver. Þær eru flottar hleðslurnar víða hér undir Eyjafjöllum, enda gátu þeir höggvið þetta til með öxi því móbergið er svo mjúkt,“ segir Guðjón og bætir við að þetta húsakerfi sé ævafornt, frá bronsöld.

„Þetta er svokallað þriggja ása kerfi, það eru súlur sem halda uppi tveimur brúnásum og þar á milli er vaglbiti og ofan á honum er mæniás. Þetta húsakerfi finnst hjá mörgum þjóðum um víða veröld, alveg til Suðurhafseyja.

Þetta er dæmigerð norræn byggingaraðferð, alveg frá forneskju, og virkilega gaman að vinna við þetta.“

Hellismuninn hefur mátt muna fífil sinn fegurri.
Hellismuninn hefur mátt muna fífil sinn fegurri.

Blóðugar sögur og ástin líka

Þegar gengið er inn í fjárhúsið segir Guðjón að dauður hrútur liggi þar undir jarðveginum og sé það vel við hæfi, því fé hafi verið haldið í húsinu árum saman.

„Einhverjar munnmælasögur eru til af Eyfellingum sem gerðust langþreyttir á durtum sem bjuggu hér í hellinum og fóru ránshendi um svæðið. Þeir voru að lokum eltir uppi og drepnir, en þú verður að láta Fannar bónda segja þér þá blóðugu sögu, ég lýg einhverju að þér ef ég segi þér hana,“ segir Guðjón og hlær.

Fleiri blóðugar sögur bætast við þegar gengið er inn í hellinn sem opnast innst í fjárhúsinu, en upp í hann eru höggnar tröppur í bergið.

„Árið 1936 komu hingað menn frá Dolla prakkara, sem fleiri kannast við sem Adolf Hitler, og stunduðu þeir rannsóknir á hellinum. Á efri hæðinni í hellinum hefur hakakross verið ristur í bergið. Þeir voru með kenningu um að hér hefðu áður fyrr farið fram fornar, heiðnar athafnir, blóðfórnir. Hér eru ummerki, bollar í gólfi og hankar í veggjum. Þýsku fornleifafræðingarnir töldu að hér hefðu þrælmenni verið bundin niður og þeir skornir á háls og blóðið látið dreyra niður í hlautbollana.“

Enginn veit hversu gamall hellirinn er en í honum hefur …
Enginn veit hversu gamall hellirinn er en í honum hefur verið höggvið úr fyrir rúmbálki.

Benjamín bætir því við að öll þessi ummerki veki ýmsar getgátur, en lítið sé um heimildir.

„Þó eru til heimildir um að til forna létu bændur hér undir Eyjafjöllum þræla sína höggva hella,“ segir hann og bætir við að hann hafi séð móösku þegar þeir voru að stinga út úr húsinu í upphafi og það bendi til þess að eldað hafi verið þarna.

Guðjón er kominn á flug í sögunum og kemur næst með frásögn af því hvernig Eyfellingar á sínum tíma blönduðust Fransmönnum. Hann segist hafa söguna frá innfæddum.

„Það strandaði franskt skip og aðeins tókst að bjarga einum ungum manni. Hann var settur kaldur og hrakinn upp í rúm til húsfreyju á bæ einum og hún afklæddist til að hlýja manninum og reyna að koma í hann lífi. Heldur fannst bónda hennar að hlýnaði um of undir sænginni, þar sem frú hans og Fransmaðurinn voru komin á fullt í ástaratlotum. Bað þá bóndi konu sína um að segja Frakkanum að hætta þessum strokum en allt hélt áfram við það sama. Öðru sinni krafðist bóndi þess að konan skipaði skipbrotsmanni að hætta þuklinu, án árangurs. Þegar eiginmaðurinn í þriðja sinni hóf upp raust sína sagði konan: „Góði segðu honum það sjálfur, ég kann ekkert í frönsku.“

Fannar er fæddur og uppalinn á Hrútafelli.
Fannar er fæddur og uppalinn á Hrútafelli.

Rútur drap alla þræla sína

Fannar Magnússon, bóndi á Hrútafelli, er fæddur þar og uppalinn, en hann segist ekki muna eftir því sjálfur þegar fé var haldið í fjárhúsinu undir klettinum, enda var hann aðeins tveggja ára þegar því var hætt.

„Afi minn var með sitt fé í þessu húsi og pabbi var líka með fé þar, allt fram til ársins 1970 þegar byggt var nýtt fjárhús hér á bæjarhlaðinu, þá var hætt að nota húsið undir klettinum. Það eru því ekki nema 46 ára síðan fjárhúsið var í notkun. Þetta var ágætis hús, heyrði ég, og þarna voru um fjörutíu fjár. Í tíð afa og ömmu var þvottur þurrkaður við klettinn ofan við fjárhúsið, því þar er opið í gegn og mikið loftstreymi í gegnum skarð sem kallað er Gjögur. Einnig eru ummerki um að vindur hafi verið nýttur til þurrkunar uppi í fjallinu, því enn hanga hrosshárareipi uppi í helli sem kallast Reipaból og þar við hliðina er hellir sem kallast Húðarból. Þar voru húðir strengdar við slétt bergið og þurrkaðar.“ Og í beinu framhaldi af því að horft er til fjallsins verður ekki hjá því komist að spyrja hvort fýllinn sem flögrar þar um í massavís sé nýttur.

„Fýlseggin voru borðuð í pabba tíð, en fýllinn sjálfur var borðaður í afa tíð. Fólk hætti að borða hann þegar fýlaveiki var talin koma upp í Vestmannaeyjum,“ segir Fannar og bætir við að hellirinn stóri inn af fjárhúsinu sé yfirleitt kallaður Rútshellir og að í honum hafi sennilega verið búið frá örófi alda.

„Gömul saga segir að þrír þrælar hafi reynt að drepa húsbónda sinn sem hét Rútur, en tókst ekki. Í framhaldinu elti Rútur þá uppi og drap þá, þann fyrsta við Stebbasteina, þann næsta við Högnaklett sem er við Rauðafell, og þann þriðja við Guðnastein uppi á Eyjafjallajökli. Þrælarnir hafa þá væntanlega heitið Stebbi, Högni og Guðni.“

Fannar er með blandaðan búskap, bæði kindur og kýr, og hrossin sem hann gefur úti á túni við þjóðveginn fá mikla athygli frá ferðamönnum.

„Það er þvílíkur straumur af fólki sem staldrar við til að skoða hrossin, mynda þau og klappa þeim. Þetta er ólán, því hrossin verða ágeng fyrir vikið, þau verða frek og vaða yfir mann. Það er ágangur af ferðamönnum hér og alveg ótrúleg traffík, bílaleigubílar þjóta hér framhjá stanslaust allan daginn, alla daga. Það liggur við að þetta sé ánauð. Til dæmis kom hér nýlega lítil rúta inn fyrir pípuhlið og heim á hlað hjá okkur og allir komu út og fóru að taka myndir. Við bændur erum orðnir sýningargripir, þessir fáu sem eftir eru. Það vantar mikið upp á tillitssemi hjá ferðamönnum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert