Borðaði um tíma allt sem hún fann

Keppendur í -163cm flokki í módelfitness. Loubna (2. sæti) er …
Keppendur í -163cm flokki í módelfitness. Loubna (2. sæti) er þriðja frá hægri, næst Íris Ósk Ingólfsdóttir (1. sæti) og svo Aðalheiður Guðmundsdóttir (3. sæti). Ljósmynd/Gyða Henningsdóttir

Loubna Idrisi hreppti fyrir helgi annað sæti á Íslandsmótinu í módelfitness í flokki undir 163 cm. Mbl.is ræddi við hana um árangurinn og hvernig hún segist hafa komist aftur á réttan kjöl eftir að hafa fengið líkamlegt áfall og greinst með átröskun eftir mót árið 2014.

Loubna (kölluð Louby) er 22 ára Reykvíkingur, ættuð frá Marokkó en alin upp á Íslandi. Hún er förðunarfræðingur og í pásu frá viðskiptafræðinámi í HR. Hún æfði áður fótbolta og dans en áhuginn á líkamsrækt byrjaði þegar hún var 17 ára. „Það var þegar botnlanginn í mér sprakk,“ segir Loubna. „Ég fékk svo mikið andlegt áfall að ég borðaði ekki í eina og hálfa viku og lá í kjölfarið á spítalanum í mánuð en ekki þrjá daga eins og venjan er. Ég missti niður alla vöðva og sjálfsöryggið og heilsan hrundu.“

Til þess að koma líkamanum aftur í lag eftir þetta byrjaði hún að æfa djassballett og fékk ráðgjöf hjá stjúpföður sínum, Kristjáni Jónssyni þjálfara í Sporthúsinu og á thjalfun.is. Það var þá sem áhuginn á fitness kviknaði.  „Þegar ég var tilbúin færði ég mig aftur í World Class. Þá keypti ég í fyrsta skipti prógram hjá IcelandFitness. Eftir það keypti ég annað frá Olgu Helenu Ólafsdóttur og sótti mér þau á netið og héðan og þaðan. Ég var aldrei í rauninni með þjálfara á þessum tíma, var bara sjálf að bulla.“

Loubna (önnur frá hægri) ásamt öðrum þátttakendum í Ungfrú Ísland …
Loubna (önnur frá hægri) ásamt öðrum þátttakendum í Ungfrú Ísland keppninni 2015

Fyrsta keppnin, fyrstu lotugræðgieinkennin

Í kjölfarið setti Loubna markið á Bikarmótið í fitness árið 2014. Það var hennar fyrsta keppni og miðað við hremmingarnar sem fylgdu hefðu flestir trúlega einnig látið það heita þeirra síðustu. Undirbúningurinn hjá Loubnu fyrir mótið, sem var haldið í nóvember, hófst ekki fyrr en í september.

„Ég hafði ekki hugmynd um hvernig og hvenær ég hefði átt að byrja að skera niður. Ég vissi ekki hversu langan tíma það gæti tekið en ég fékk smá kynningu hjá IcelandFitness sem aðstoðuðu mig í byrjun og kynntu þetta fyrir mér. Það sem ég klikkaði á var að skera mig niður á allt of stuttum tíma og mæla ekki matinn minn. Ég vissi ekki hvað það ofboðslega mikilvægt, sérstaklega í svona hardcore niðurskurði en ég reyndi líka að hlaupa eins mikið og ég gat til þess að léttast hraðar. Það er það sem mér var leiðbeint að gera á þessum tíma.

Þetta gerði það að verkum að á svindldögum vaknaði ég um 6 á morgnana og planaði hvað ég ætlaði að borða allan daginn. Ég endaði með að troða tíu máltíðum í mig þá daga, sem var svakalegt, og var alltaf þurr. Það átti að vera eðlilegt. Mér var sagt að þessi íþrótt eigi að vera svona og eins sé það eðlilegt að hætta á túr en það er alls ekki satt!“

Tveimur vikum fyrir mót ákvað Loubna að setja sig í samband við reyndan þjálfara til þess að redda undirbúningnum. „Ég ætlaði sko ekki að hafa eytt tíma og peningum til einskis! Ég hafði samband við Jóhann Norðfjörð í Fitness Akademíunni með Sigurði Gestssyni. Venjulega tekur hann ekki við neinum svona stutt fyrir mót en ég var heppin að fá pláss.“

Eftir að hafa fengið leiðbeiningar frá Jóhanni um mataræði og brennsluprógram leið Loubnu betur og árangurinn á lokasprettinum segir hún hafa skilað sér í módelformi upp á svið. „Ég var sátt við að hafa rétt sloppið og ekki verið þessi stelpa á sviðinu sem lítur út fyrir að hafa bara tekið þátt til að sýna sig í bikiní í engu formi.“

Daginn fyrir mótið.
Daginn fyrir mótið. Ljósmynd/Gunnar Örn

Eftirköstin og lærdómurinn

Strax eftir mótið fékk Loubna símhringingu frá Fitness Akademíunni þar sem þeir buðu henni styrktarsamning. „Þau voru rosa ánægð með mig og kosturinn við þá er að þau hafa svo bullandi trú á manni. Þannig fékk ég ennþá meiri trú á sjálfri mér. Ég var hissa á að þau sáu eitthvað við mig sem hentaði í þessu sporti.“

Loubna var þó síður en svo í góðu standi líkamlega og andlega á þessum tíma. Átröskunareinkennin ágerðust og líkaminn virtist vera að gefast upp. „Ég borðaði um tíma allt sem ég fann heima. Tvo lítra af ís í einu og allt sem var sætt á bragðið; kex og kökur. Ég borðaði stundum á korters eða hálf tíma fresti án þess að fatta að það hafi liðið svona stuttur tími á milli.“

Á endanum gat hún þetta ekki lengur. „Ég reyndi að taka brennsluæfingu. Þá fékk ég svakalegan sting og fann sársauka í öllum vöðvum og taugum. Ég gekk út úr líkamsræktarstöðinni, settist niður á stein og hágrét úr sársauka í klukkutíma. Það var vont bara að ganga og ég gat ekki farið í ræktina í mánuð. Ég fór frá 51 kg keppnisþyngd upp í 68 kg en ég er venjulega 55-57 kg. Ég var 6-8 mánuði að jafna mig á lotugræðginni og fékk sífelld hræðsluköst yfir því að ég væri að verða svöng.“

Loubna segist hafa lært sína lexíu eftir þessar hremmingar. „Það sem ég lærði af þessu fyrsta móti er hversu mikilvægt er að hafa þjálfara a.m.k. 6 mánuðum fyrir mót. Það er ekkert grín að skera sig niður og þú verður að hafa þjálfara með sérkunnáttu í þessari íþrótt með þér allan tímann, sérstaklega ef þú ert að gera þetta í fyrsta skiptið. Þetta er harðari íþrótt en maður heldur í upphafi því maður verður að borða, sofa og lifa fitness! Þetta er lífsstíll, ekki eitthvað sem þú ákveður að gera til að vera flott einn daginn og springur svo út eftir mót.“

Loubna og þjálfarinn hennar, Jóhann Norðfjörð eftir mótið.
Loubna og þjálfarinn hennar, Jóhann Norðfjörð eftir mótið.

Breytt nálgun á íþróttina

Fyrir Íslandsmótið í ár hóf Loubna undirbúninginn í september, um sex mánuðum fyrir mótið sem var haldið í síðustu viku. Sá undirbúningur tók við strax að lokinni þáttöku í Miss World Iceland, sem takmarkaði þann tíma sem hún hafði í æfingar. Hún var aftur undir handleiðslu Fitness Akademíunnar en þjálfararnir þar hafa umfangsmikla reynslu af þjálfun fyrir fitness og skyldar greinar.

 „Þau vita hvað mismunandi IFBB og NPC [Alþjóðleg og bandarísk fitness sambönd] mót eru að leitast eftir, segir Loubna um þjálfara sína, „sem ég held að fæstir þjálfarar hafi reynslu af. Hvaða þjálfari sem er getur komið þér í gott form en það eru ekki allir sem geta komið þér í IFBB PRO heimsklassa form og þykir vænt um heilsu þína á meðan þú ert að reyna að ná þínum markmiðum og leiðbeina þér með hvernig á að æfa og borða til þess að gera þetta á heilbrigðan hátt.“

Í byrjun niðurskurðarferlisins fyrir þetta mót var Loubna um 62 kg. Í þetta sinn ákvað hún að nálgast undirbúninginn eins og um æfingar fyrir hefðbundnar íþróttir væri að ræða. „Ég vildi gera tilraun með hversu miklum árangri ég myndi ná ef ég mætti á allar æfingar, sleppti engum máltíðum og leyfði mér ekki að verða svöng. Ég gerði þetta í um sjö mánuði, alveg fram að Íslandsmótinu og leit á það eins og það væri heimsmeistaramót.“

Frá átta til ellefu æfingar á viku

Hún skipti um vinnu sem hentaði æfingatímunum betur og tók sex lyftingaæfingar á viku með eftirbrennslu auk 2-3 hálftíma aukabrennsluæfingar á morgnana fram að áramótum. Síðustu þrjá mánuðina fyrir mót fjölgaði svo morgunæfingunum í 4-5. „Mér leið mjög vel á meðan þessum niðurskurði stóð. Ef ég varð svöng borðaði ég ávöxt eða grænmeti með sósu eða kotasælu. Svo auðvitað fékk ég nammidaga og á rauðum dögum leyfði mér að svindla en á öðrum dögum hélt ég mér við planið. Ég tók aukabrennslur um jólin, var heppin með að World Class Kringlunni er alltaf opið, og fór meira að segja að sofa áður en skaupið byrjaði um áramótin! Ég vildi ekki skemma heila æfingaviku með einum lélegum svefndegi.“

Sex vikum fyrir mót voru svindldagar felldir niður og Loubna byrjaði að borða samkvæmt svokölluðum kolvetnahring (e. carb cycling) þar sem farið er eftir þriggja daga hringrás. Fyrsta daginn er borðað mikið kolvetni, næsta dag er það minnkað og þriðja daginn er það skorið nær alveg niður en hún borðaði þó ávexti og bætti inn próteini og fitu.

Hún segir heilsuna hafa verið í góðu lagi allan tímann og varð ekki vör við sömu neikvæðu áhrif og áður. „Líkaminn var rosa heilbrigður, engar svefntruflanir eða neitt svoleiðis og ég var á bullandi túr allan tímann,“ segir hún, en rof á tíðahring er algengur fylgifiskur mikillar þjálfunar og niðurskurði á fitu. „Þetta er búið að vera eitt það skemmtilegasta, en líka það erfiðasta því ég þurfti að losna við fituþyngd sem ég bætti við mig frá bikarmótinu 2014.“

Loubna á sviðinu, til vinstri á Bikarmótinu 2014 og til …
Loubna á sviðinu, til vinstri á Bikarmótinu 2014 og til hægri á Íslandsmótinu í ár.

Fegin að komast á sviðið

Eftir svona langan og strangan undirbúning er óhjákvæmilegt að finnast léttir að komast á svið og uppskera af erfiðinu. Eins segist Loubna hafa fundið fyrir tilhlökkun fyrir því að toppa sitt eigið form en þrýstingurinn er mikill á það að ná sem mestu út úr aðeins nokkrum mínútum á sviðinu fyrir framan augu dómaranna.

„Ég hafði góða tilfinningu fyrir þessu móti,“ sagði Loubna, „ég var búin að vera að skera niður fyrir það í liggur við hálft ár og í fylgd með einum af bestu þjálfurum í heimi og horfði á þetta með öðrum augum en flestir keppendur held ég. Ég var samt stressuð yfir því að eitthvað skildi fara úrskeiðis á síðustu stundu. T.d. bikiníið eða hárið ekki í lagi eða undankeppnisliturinn ekki rétt borinn á. Ég var í fyrsta skipti að setja undirlitinn á alveg sjálf. Svo var ég líka að stressast yfir því ekki ákveðnum pósum 100% rétt, vera of skorin eða flöt eða illa sofin degi fyrir mót.“

Baksviðs er ýmislegt í gangi og keppendur í óða önn að gera sig tilbúna. „Það er alveg stemning baksviðs,“ segir Loubna. „Allir að pumpa sig með handlóðum og pumpa rassinn með aftursparksæfingum. Ég kom með ökklalóð og pumpaði rassinn og svo er alltaf hefð fyrir því að taka klósettselfies!“

Loubna tekur þó einnig fram að keppnin er í raun ekki aðeins á milli keppenda sem slíkra heldur einnig þjálfara. Keppendur gætu gert allt sitt upp á tíu en ef þjálfunin bregst geti það dugað skammt.

Skylduselfie á klósettinu baksviðs.
Skylduselfie á klósettinu baksviðs. Ljósmynd/Loubna Idrisi

Stolt og spennt fyrir næsta móti

Sem fyrr segir hafnaði Loubna í öðru sæti í sínum flokki, sem hún segir almennt talinn mjög sterkan í þessari grein. Sigurvegarinn í hennar flokki, Íris Ósk Ingólfsdóttir (88 stig gegn 84 stigum Loubnu), sigraði einnig í opnum flokki í módelfitness. Þrjú efstu sætin færa keppendum einnig þátttökurétt á Norðurlandamótinu í fitness (nánar hér).

„Ég hoppaði úr 7. sætinu 2014 upp í 2. sæti og ég er rosalega ánægð með hvað ég er búin að bæta mig. Ég stefni klárlega á bikarmótið 2016 en ég er búin að vera að bera saman myndir frá síðasta móti og það hvetur mig enn meira til þess að gera betur fyrir næsta mót og toppa formið mitt.“

Loubna á Instagram

Eftir allt erfiðið fyrir mótið sleppir Loubna bikarnum ekki langt …
Eftir allt erfiðið fyrir mótið sleppir Loubna bikarnum ekki langt frá sér. Ljósmynd/Loubna Idrisi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert