Ekki „hringlað“ með hagsmunaskráningu

Einar Kr. Guðfinnsson forseti Alþingis.
Einar Kr. Guðfinnsson forseti Alþingis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Uppljóstranir um tengsl forsætisráðherra og fleiri ráðherra í ríkisstjórn við aflandsfélög í skattaskjólum þýða ekki að reglur um hagsmunaskráningu þingmanna nái ekki tilgangi sínum, að mati Einars Kr. Guðfinnssonar, forseta Alþingis. Almenningur verði að geta treyst því að ekki sé hringlað með reglurnar.

Mikil umræða hefur skapast um félag í eigu eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, á Bresku Jómfrúareyjum sem á kröfur á alla föllnu bankana. Í gær var svo upplýst að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, hafi átt hlut í félögum sem skráð voru í löndum sem eru talin skattaskjól.

Skrifstofa Alþingis heldur utan um hagsmunaskrá þingmanna en reglur um hana voru fyrst samþykktar árið 2009 og endurskoðaðar árið 2011. Fjármálaráðherra segir að félag sem hann átti hlut í á Seychelles-eyjum hafi verið afskráð árið 2009. Innanríkisráðherra segir að félag sem hún átti í á Bresku Jómfrúareyjum hafi verið afskráð árið 2008. 

Rasi ekki um ráð fram með breytingar

Í fyrstu grein reglnanna er tilgangur skrárinnar sagður sá að „veita almenningi upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni alþingismanna og trúnaðarstörf þeirra utan þings og þar með auka gagnsæi í störfum Alþingis“. Í ljósi uppljóstrana síðustu daga má því spyrja hvort að reglurnar eins og þær eru orðaðar í dag nái yfirlýstum tilgangi sínum.

„Hagsmunaskráning eins og þessi er eitthvað sem undirorpið endurskoðun á hverjum tíma. Það má ekki gleyma því að að það er ekki langt síðan hún hófst. Hún var síðan endurskoðuð og í þeim búningi hefur hún verið. Það hefur almennt talað ekkert verið að henni fundið. Ég vil alls ekki segja það að hún nái ekki tilgangi sínum,“ segir forseti Alþingis.

Hugsanlegar breytingar á reglum um hagsmunaskráninguna hafa ekki verið teknar upp á formlegum vettvangi þingsins, að sögn Einars. Þó geti vel verið að þegar fram í sæki vilji menn skoða það að nýju. Sjálfur segist Einar ekki vilja rasa um ráð fram í þeim efnum.

„Menn þurfa auðvitað að vanda sig við þetta fyrirkomulag. Almenningur verður auðvitað að geta treyst því að það sé ekki verið að hringla með reglurnar fram og til baka heldur að þær séu nokkuð skýrar. Ef menn fara í einhverja skoðun á þessari hagsmunaskráningu verður það að vera eitthvað sem menn gera af vandvirkni og vel undirbúið,“ segir hann.

Færa þarf gild rök fyrir skráningu maka

Ekkert er fjallað um hagsmuni maka þingmanna í reglum um hagsmunaskráninguna og segir Einar það hafa verið eitt af því sem mikið var rætt um á þeim tíma sem þær voru settar. Niðurstaðan þá hafi verið sú að taka maka þingmanna ekki með í skráninguna.

„Þarna er auðvitað bæði verið að undirstrika sjálfstæði þingmannsins og makans. Reglur um hagsmunaskráningu hjá okkur sækja sér fyrirmynd í sambærilegar reglur í danska þinginu. Þar er til dæmis nákvæmlega sama fyrirkomulag varðandi fjármál maka og ekki gert ráð fyrir skráningu á þeim í hagsmunaskráningunni,“ segir þingforsetinn.

Sjálfur segist Einar myndu vera tregur til að færa inn upplýsingar um maka í hagsmunaskráningu þingmanna og telur að færa þyrfti fyrir því mjög gild rök. Mál forsætisráðherra og eiginkonu hans breyti ekki þeirri afstöðu hans.

„Þessi afstaða mín er prinsippafstaða. Menn verða að skoða þessi mál út frá prinsippafstöðu,“ segir Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert