Stormur gæti skollið á annað kvöld

Annað kvöld má búast við hvassviðri um landið suðvestanvert.
Annað kvöld má búast við hvassviðri um landið suðvestanvert. mbl.is/RAX

Austlæg átt verður í dag og víða nokkuð bjart á landinu, en snjókoma verður með köflum sunnanlands þar sem lítil lægð liggur suður af landinu með nokkuð stífum vindi allra syðst. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Búist er við að sú lægð fari austur í dag og því kann að stytta upp og létta til suðvestanlands í kvöld.

Veðurfræðingur Veðurstofunnar gerir ráð fyrir því að á morgun hvessi af suðaustri og þá muni hlýna um leið. Úrkoman sunnantil muni því breytast í slyddu og síðan rigningu, en áfram verði þurrt fyrir norðan. Þá segir að annað kvöld megi búast við hvassviðri um landið suðvestanvert, jafnvel stormi og einkum við ströndina.

Á föstudaginn er útlit fyrir áframhaldandi hvassviðri og talsverða rigningu sunnan- og austanlands, en seinni partinn dregur úr vindinum og stefnir í að helgin verði nokkuð blaut með suðurströndinni, en þurrt norðanlands.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert