Elliði játar eignahald á „suðrænni eyju“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

„Ágætu vinir. Ég vil hér með upplýsa að við Bertha Johansen kona mín eigum eignir á suðrænni paradísareyju og bætist ég þar með í hóp þeirra sem fjallað hefur verið um á seinustu dögum vegna slíks.“ Svo hefst yfirlýsing Elliða Vignissonar sem hann birtir á Facebook-síðu sinni.

Segir svo að þeim hafi ekkert illt gengið til með því að velja eignum sínum stað á þessari suðrænu eyju.

„Þegar ákvörðun var tekin vorum við búsett þar og því mikið hagræði af því að geyma eignirnar þar sérstaklega þar sem við hugðumst ætíð búa á þessari paradísareyju. Þá hafði það einnig áhrif að kona mín stofnaði fyrirtæki þar,“ segir Elliði.

Vestmannaeyjar eru víst suðrænar að mati Elliða.
Vestmannaeyjar eru víst suðrænar að mati Elliða. mbl.is/Árni Sæberg

Suðræn eyja við Íslandsstrendur

Vísar hann með færslunni til þeirrar umræðu sem verið hefur um fjárhagi þriggja ráðherra í ríkisstjórn Íslands, þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal. Ljóst er þó að Elliða er ekki full alvara heldur er umrædd suðræn eyja engin önnur en Heimaey, sem ráða má af framhaldi færslunnar:

„Af þessu hefur ekki hlotist neitt skattalegt hagræði og hafa allar eignir verið gefnar upp til skatts. Sjálfur hef ég ekki haft prókúru á reikninga fyrirtækis konu minnar en játa að ég hef haft óheft aðgengi að sameiginlegum reikningum okkar hjóna sem geymdir eru í bönkum á þessari suðrænu Eyjum.

Við Bertha Johansen erum stolt af því lausafé sem við eigum í þessum tilteknu bönkum. Við vonumst til þess að það dugi fyrir reikningum næstu mánaðarmóta og jafnvel megninu af útgjöldum fjölskyldunar næsta mánuð, það er að segja eftir útborgun. Við vitum að slíkt er ekki sjálfgefið og erum þakklát fyrir slík forréttindi.

Við erum líka stolt af öðrum eignum okkar og þá ekki síst þeirri fasteign þar sem fjölskyldan ver flestum sínum frístundum og kallar heimili.

Við hvetjum landsmenn til að gera eins og við og beina viðskiptum sínum að útibúi Landsbankans við Bárustíg og/eða útibúi Íslandsbanka við Kirkjuveg.

Þótt Vestmannaeyjar séu ekki skattaparadís (nema fyrir ríkið sem tekur héðan mikla skatta) þá eru þær sannarlega paradísareyja fyrir íbúa og gesti þeirra.

........þar sem hjartað slær.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert