Niðurstaðan betri en búist var við

Snorri Baldursson, formaður Landverndar.
Snorri Baldursson, formaður Landverndar. mbl.is/Þórður Arnar

Félagasamtökin Landvernd telja drög verkefnisstjórnar að lokaskýrslu þriðja áfanga verndar- og orkunýtingar virkjunarkosta vera betri en þau þorðu að vona. Segja þau niðurstöðurnar vera enn eitt lóð á þá vogarskál að hægt verði að friðlýsa allt miðhálendið sem þjóðgarð og megi túlka sem sterka stuðningsyfirlýsingu við samtökin sem og önnur náttúruverndar- og útivistarsamtök og aðila í ferðaþjónustu.

Þetta segir Snorri Baldursson, formaður samtakanna. Hann segir að svo virðist sem að verkefnisstjórn rammaáætlunar fallist á hátt verndargildi hálendisins með því að færa þrjú vatnasvið í verndarflokk, þ.e. Skjálfandafljót, vatnasvæða Héraðsvatna og Jökulsáa í Skagafirði og Skaftár.

Frétt mbl.is: Sjö virkjanakostir í nýtingarflokk

„Þegar þetta er tekið saman er langt yfir helmingur hálendis Íslands þegar verndað og restin er þjóðlenda. Við erum býsna sátt við þetta,“ segir Snorri en bætir við að hann hefði kosið að Skrokkalda yrði ekki færð í nýtingarflokk, sem var gert. Um sé þó að ræða litla virkjun og auðvelt verði að ná pólitískri samstöðu um að hætta við hana.

 „Sterk stuðningsyfirlýsing við okkur og önnur náttúruverndarsamtök“

Snorri segir að stór vatnasvið hefðu verið undir í þessu mati og á meðan þau hafi ekki verið komin í verndarflokk hefði verið ákveðin hætta á ferðum vegna freistnivanda. „En verkefnastjórnin vann sína vinnu mjög faglega og vel þannig við erum nokkuð sátt,“ segir hann.

„Við munum nýta niðurstöðurnar, rammaáætlun, sem enn eitt lóð á þá vogarskál að friðlýsa allt miðhálendið sem þjóðgarð. Þetta er sterk stuðningsyfirlýsing við okkur og önnur náttaverndarsamtök,“ segir hann en í upphafi þessa mánaðar undirrituðu um 20 náttúruverndar- og útivistarsamtök auk aðila úr ferðaþjónustu viljayfirlýsingu um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

Frétt mbl.is: „Tímamótasamstaða um náttúruvernd“

Frá Héraðsvötnum.
Frá Héraðsvötnum. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert