Sigurður í nautaati í Portúgal

Sigurður Björnsson atast í nautinu áður en hann lætur til …
Sigurður Björnsson atast í nautinu áður en hann lætur til skarar skríða á vellinum í Portúgal.

Sigurður Björnsson lék listir sínar í nautaati í Povóa St. Miguel - Moura í Portúgal á páskadag. „Ég var heppinn með naut, það var hugrakkt og árásargjarnt, og ég komst þokkalega vel frá bardaganum,“ segir hann.

Nautaat í Portúgal er frábrugðið nautaati á Spáni og til dæmis eru nautin hvorki illa særð né drepin, þó stungið sé í þau. Atið hefst á því að reiðmaðurinn kemur inn á völlinn og síðan er nautinu sleppt inn. Þá hefst eltingarleikur, nautið á eftir hestinum, og knapinn færir leikinn inn á miðjuna, þar sem hann gerir atlögu að nautinu og hefur tíu mínútur til að sýna listir sínar.

Tveir bardagar í maí

Þetta var fyrsti opinberi bardagi Sigurðar en hann hefur lært réttu tökin undanfarna tvo mánuði og er skráður í tvo bardaga í maí, næst í Figuera da Foz 12. maí.

„Ég hef verið í stífri þjálfun enda má lítið út af bera þegar komið er í hringinn,“ segir Sigurður. „Hestarnir, sem eru af svokölluðu Lusitano-kyni, eru gríðarlega vel þjálfaðir og þetta er reiðmennska á hæsta stigi en hestunum er nánast alfarið stjórnað með fótum og ásetu.“

Sigurður segir að í fyrrasumar hafi tveir menn frá Portúgal verið með honum í hestaferð suður Kjöl og þeir hafi sagt honum frá þessari tegund nautaats. „Þegar ég sá vídeómyndir til nánari skýringar heillaðist ég algerlega og sagði við sjálfan mig að þetta yrði ég að læra og hér er ég nú, búinn að læra grunnatriðin og búinn með fyrsta bardagann.“

Nautaatið í Portúgal er að mestu stundað af fjölskyldum, sem hafa verið í því mann fram af manni. „Nú eru ekki nema um 100 starfandi nautabanar og því ekki svo einfalt að komast inn í þennan heim en annar Portúgalinn, sem fór með mér í hestaferðina í fyrrasumar, gekk í málið og kom mér að hjá Jorge D'Almeida, sem er gömul hetja með um 1.500 bardaga að baki.“

Sigurður hefur verið í Portúgal frá því í lok janúar. „Ég hef æft vel til þess að ná tökum á reiðmennskunni en það er of seint fyrir mig að slá í gegn í íþróttinni. Það eru eingöngu listamenn í þessu og til þess að komast á toppinn þurfa menn að byrja að æfa á barnsaldri.“ Hann bætir við að þó hann snúi senn að fyrri störfum á hálendi Íslands verði reynslan ekki tekin frá honum. „Það er mikil pappírsvinna í sambandi við að fá að keppa og ég fékk atvinnuleyfi sem listamaður undir eigin nafni.“

Sigurður skipti einu sinni um hest áður en yfir lauk.
Sigurður skipti einu sinni um hest áður en yfir lauk.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert