Snýr fyrst og fremst að Sigmundi

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að tillaga stjórnarandstöðuflokkanna um að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga, sem lögð verður fram þegar Alþingi kemur saman í næstu viku eftir páskafrí, snúi fyrst og fremst að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra. Alvarlegasta staðan sé í hans tilfelli þar sem hann hafi setið beggja megin borðs í viðræðum kröfuhafa föllnu bankanna og íslenska ríkisins.

Hún segir að það eigi ekki að blanda saman máli hans og þeirra Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra. „Í raun og veru í máli Sigmundar er hann beggja megin borðs,“ segir Birgitta. Hún segir að stjórnarandstöðuflokkarnir komi til með að leggja fram ítarlegar spurningar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd með Umboðsmanni Alþingis um siðferðisleg og vafasöm lagaatriði í kringum gjörninginn. Þá verði farið fram á skýrslu frá ráðamönnum um ferlið. Fundurinn verður að öllum líkindum boðaður á morgun eða á mánudag að sögn Birgittu.

Á von á því að allir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna styðji tillöguna

Spurð hvort allir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna séu á bak við tillöguna um þingrof segist Birgitta telja svo vera. Á fundi þingflokksformanna og formanna stjórnarandstöðuflokkanna í gær skildist henni að allir þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna væru á bak við tillöguna, nema annað komi í ljós.

„Við byrjuðum á að undirbúa vantrausttillögu sem lýtur aðallega að vantrausti í kringum Sigmund Davíð. Hann fer fyrir ríkisstjórninni og á meðan aðrir ráðherrar fella sig við hans forystu hlýtur vantraustið að lúta að allri ríkisstjórninni,“ segir Birgitta.

Hún bætir því við vantrausttillögur gegn einstökum ráðherrum séu mjög flóknar og gallað fyrirkomulag því það feli í sér vantraust minnihlutans á meirihlutann „og meirihlutinn fellir aldrei sjálfan sig,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert