Vinnuvélar sukku í Mývatn

Af tökustað Fast 8 við Mývatn.
Af tökustað Fast 8 við Mývatn. mbl.is/Birkir Fanndal

Tvívegis hafa vinnuvélar sokkið í Mývatn á síðustu dögum eftir að ís brast undan þeim. Vélarnar, grafa og dráttarvél, eru notaðar við tökur á kvikmyndinni Fast 8 úr The Fast and the Furious kvikmyndabálkinum sem hafa, eins og kunnugt er, staðið yfir við Mývatn síðustu vikur.

„Það brast ís undan gröfu um páskana og hún fór hálf í vatn. Það hafa farið svona um það bil tveir lítrar af olíu úr þeirri vél,“ segir Davíð Örvar Hansson, sérfræðingur Umhverfisstofnunar á Mývatni. Davíð segir að notaðar hafi verið svokallaðar ísogsmottur til að ná olíunni upp og ísinn sem mengaðist hafi verið fluttur af vettvangi og honum fargað í spilliefnamóttöku.

„Við tókum sýni úr vatninu eftir þetta og sýnin reyndust allavega olíulaus. Þau voru úr yfirborðinu svo það ætti ekki að hafa verið nein olía eftir. Svo þetta fór eins vel og það gat farið úr því sem fór.“

Þar með er raunar ekki öll sagan sögð því í morgun brast ísinn undan dráttarvél sem fór niður að hluta. Davíð segir að svo virðist sem þar hafi engin olía farið niður en að frekari sýni verði tekin svo hægt sé að fullvissa sig um að svo sé.

„Þetta verður náttúrulega til þess að við þurfum að endurskoða hvernig við vinnum þarna á ísnum en við vinnum þetta í góðu samstarfi við framkvæmdaaðila,“ segir Davíð. Inntur eftir því hvort atvikin verði til þess að hætta þurfi við einhverjar tökur segist hann ekki telja að svo verði.

„Þetta er komið nánast að endapunkti . Það mesta er yfirstaðið en að sjálfsögðu munum  við fara vel yfir þetta mál í dag og svo aftur á morgun, meta stöðuna í samráði við alla aðila sem hlut eiga að máli. Þetta eru fyrstu atvikin í tengslum við þessar tökur svo það má segja að þær hafi gengið vonum framar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert