Eiga verðbréf í skattaskjólum

Erlend verðbréfaeign íslenskra lífeyrissjóða og tryggingafélaga nam tæplega 700 milljörðum …
Erlend verðbréfaeign íslenskra lífeyrissjóða og tryggingafélaga nam tæplega 700 milljörðum íslenskra króna í júní á síðasta ári.

Skattaskjól á borð við Bermúda, Cayman eyjar og Hong Kong eru meðal þeirra ríkja þar sem íslenskir lífeyrissjóðir og/eða tryggingafélög eiga skráð verðbréf. Þetta kemur fram í upplýsingum sem birtar eru á vef Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS).

Erlend verðbréfaeign íslenskra lífeyrissjóða og tryggingafélaga, sem falla í sama flokk á lista AGS, nam ríflega 5,6 milljörðum dollara, eða tæplega 700 milljörðum íslenskra króna í júní á síðasta ári. Alls eiga lífeyrissjóðirnir og tryggingafélögin verðbréf sem skráð eru í 33 ríkjum, meðal annars í svo nefndum  skattaskjólum. Verðbréfaeignin á Bermúda, Cayman eyjum og Hong Kong  nemur 13 milljónum dollara, um 1,6 milljarði króna.  

Gögnin sem birt eru á vef AGS taka þó aðeins til fyrsta leggs fjárfestingar frá Íslandi. Þannig getur verið um að ræða fjárfestingu í verðbréfasjóði sem skráður er í einu landi, þó að endanleg fjárfesting geti verið í öðrum löndum.

Eiga ríflega 60% 

Erlend verðbréfaeign hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna nam 153 milljörðum króna í fyrra samkvæmt árskýrslu sjóðsins. Erlend verðbréfaeign Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins nam rúmum 178 milljörðum króna 2014 og þá nam erlend verðbréfaeign Gildis sama ár rúmum 98 milljörðum króna, auk þess sem eignir síðastnefnda sjóðsins í erlendum skuldabréfum, fasteignasjóðum, skammtímasjóðum og vogunarsjóðum námu rúmum fimm milljörðum.  

Hafi ekki orðið miklar breytingar á erlendri verðbréfaeign þriggja stærstu lífeyrissjóða landsins, þá eiga þeir ríflega 60% af erlendri verðbréfaeign íslenskra lífeyrissjóða og tryggingafélaga.

Athygli vekur, þegar listi AGS er skoðaður, að erlend verðbréfaeign lífeyrissjóða og tryggingafélaga í Lúxemborg nemur tæpum 1,7 milljarði bandaríkjadala – eða ríflega 206 milljörðum íslenskra króna, en Lúxemborg hefur oft sætt gagnrýni fyrir bankaleynd.  Þá vekur mikil verðbréfaeign á Írlandi líka athygli og nemur hún tæplega 1,6 milljörðum dollara og þá er verðbréfaeign í Bandaríkjunum skráð tæplega 1,3 milljarðar dollara.  

„Erum þar sem allir eru“

Þórhallur B. Jósepsson, ráðgjafi hjá Lífeyrissjóð verzlunarmanna, sem á um fimmtungs hlut erlendu verðbréfanna segir ástæðuna einfalda. „Við erum þar sem allir eru. Þar sem verðbréfasjóðirnir eru þangað fara þeir sem þurfa að láta ávaxta fyrir sig.“ Hann segir Lífeyrissjóð verzlunarmanna eiga erlend verðbréf skráð á nokkrum stöðum, m.a. í Lúxemborg. Hann kveðst hins vegar ekki vita hverju vinsældum Írlands sætir.

Að sögn Þórhalls á erlend verðbréfaeign Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sér þó nokkra sögu. Erlendar fjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða hafi fyrst verið heimilaðar 1994, en á tíunda áratugnum hafi regluverki Evrópusambandsins og Lúxemborgar verið þannig háttað að verðbréfasjóðirnir hafi safnast þar fyrir og nokkurs konar fjármálamiðstöð myndast. „Flest þessi fyrirtæki sem eru í eignastýringu fyrir sjóðinn voru valin á þessum árum,“ segir hann og kveður leyndarhyggjuna sem rætt er um í tengslum við Lúxemborg varða almenna bankaleynd ekki verðbréfasjóði.  

Við og við bætist ný fyrirtæki í hóp þeirra sem lífeyrissjóðurinn kaupir verðbréf frá. „Fyrirtækin sem við skiptum við eiga það öll sameiginlegt eiga langa sögu að baki og vera álitin traust eftir þeim mælikvörðum sem við höfum aðgang að.“

Spurður hvort Lífeyrissjóður verzlunarmanna eigi eignir á Bermúda, Cayman eyjum eða Hong Kong, segir hann: „Mér er ekki kunnugt um að Lífeyrissjóður verzlunarmanna eða aðrir lífeyrissjóðir séu í því. Ég hef ekki heyrt þess getið.“

Á myndina vantar tölur yfir upphæð í öðrum sjóðum en …
Á myndina vantar tölur yfir upphæð í öðrum sjóðum en sú er 22 milljónir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert