Dýrgripir Íslands voru bræddir í Danmörku

Silfurljónin í Rósenborgarhöllinni. Eru þau gerð úr íslensku silfri?
Silfurljónin í Rósenborgarhöllinni. Eru þau gerð úr íslensku silfri?

Afdrif íslenskra klausturgripa, einkum úr silfri eða öðrum góðmálmi, eru nú ljós eftir mikla og langa leit. Svo segir Steinunn J. Kristjánsdóttir fornleifafræðingur en hún hefur nýlokið rannsóknum á skjölum í Kaupmannahöfn þar sem íslenskra klausturgripa er getið.

Í samtali við mbl.is segir Steinunn að gripina sé hvorki að finna í jörðu á Íslandi né á neinu safni. Heldur hafi þeir flestir, ef ekki allir, verið fluttir til Kaupmannahafnar og bræddir þar í mynt eða aðra gripi. Um þetta sé fjallað í bréfabókum danska kanselísins fyrstu áratugina eftir íslensku siðaskiptin árið 1550.

„Ég er búin að vera í Kaupmannahöfn að leita að klausturgripum og skjölum um þá til að reyna að finna út hvað varð af þeim öllum,“ segir Steinunn.

„Eftir að hafa lesið ógrynni af skjölum þá er það fyrir algjöra tilviljun sem ég rekst á þetta. Ég hafði í raun bara verið að skoða íslensk skjöl en hugsaði með mér að fyrir Dani hlyti þetta bara að vera innanríkismál.

Svo ég ákvað að kíkja, eiginlega fyrir rælni, í danskar bréfabækur. Og ég bara finn þetta – allir klausturgripirnir voru fluttir til Kaupmannahafnar og í alveg gríðarlegu magni. Ég bara trúi ekki að Íslendingar hafi átt svona mikið silfur, þetta hlýtur að vera víkingaaldarsilfur líka. Miðað við lýsingarnar í skjölunum þá var þetta ferð eftir ferð með íslenska gripi suður til Danmerkur.“

Steinunn stjórnaði uppgreftri á Skriðuklaustri í Skriðdal í nærri áratug.
Steinunn stjórnaði uppgreftri á Skriðuklaustri í Skriðdal í nærri áratug. mbl.is/Helgi Bjarnason

Glundroði og upplausn á Íslandi

Hún segir að heilu skipsfarmarnir af silfri hafi þannig verið fluttir utan, og raunar lýsi líka, en einnig gripir úr gulli, til dæmis kaleikar, patínur, og svo jarðabækur og aðrir gripir. Virðist útflutningurinn hafa staðið yfir á árunum 1555 til 1570 en ljúka svo skyndilega.

Farmarnir séu svo margir að erfitt sé að ímynda sér að svo mikið silfur hafi einhvern tíma verið til á Íslandi. Við lestur bréfanna megi enn fremur glöggt sjá að algjör glundroði og upplausn ríkti í stjórnlausu landinu á þessum tíma, þegar menn konungs létu greipar sópa. Þá hafi jafnvel sjóræningjar komið að landi og reynt að komast yfir hluta góssins.

„Það er tvisvar sinnum minnst á sjóræningjaskip þar sem þau herja á Ísland en Danakonungur stöðvar það, líklega því hann sjálfur vildi komast yfir silfrið, frekar en að verja fólkið. Að minnsta kosti upplifi ég það þannig við lestur skjalanna.“

Af þeim megi einnig ráða að fólki hafi verið refsað fyrir að halda eftir gripum sem fulltrúar konungs vildu að færu til Danmerkur. Þessi mynd hér að neðan er til dæmis af líkneski frá Skriðuklaustri sem fannst í vegg fjárhúss í nágrenninu, eins og því hafi verið komið undan.

Maríulíkneski sem talið er að hafi verið í Skriðuklaustri og …
Maríulíkneski sem talið er að hafi verið í Skriðuklaustri og fannst í vegg fjárhúss.

Allt gjörsamlega hreinsað í burtu

Steinunn segir að sér finnist þetta vera ótrúleg uppgötvun.

„Ég trúi ekki að ég hafi fundið þessi skjöl og að þetta hafi verið svona. En þetta stendur þarna svart á hvítu. Og við skoðun eldri heimilda og verka fyrstu sagnfræðingana hér á landi, upp úr 1900, þá má sjá að til dæmis Páll Eggert Ólason notar þessi skjöl og segir þetta – að á Íslandi hafi allt gjörsamlega verið hreinsað í burtu. En síðan virðast fræðimenn hætta að nota þau og vitna ekkert í þau. Ég var að minnsta kosti ekki fyrst til að finna þetta.“

Þrjú ljón „steypt úr innfluttu silfri“

„Ég rauk svo út í Rósenborgarhöll, sem Danakonungur byggði upp úr 1600, því þar er minjasafn dönsku krúnunnar. Þar er náttúrulega bara allt silfrið, þar á meðal þrjú ljón í fullri stærð, sem sögð eru hafa verið steypt úr innfluttu silfri í kringum 1600.

Það er því ef til vill satt sem nóbelskáldið sagði í Íslandsklukkunni, að Kaupmannahöfn hafi verið byggð fyrir íslenska peninga og lýst upp með íslenskum grút. Ég hef aldrei skilið hvað hann meinti beinlínis, fyrr en nú.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert