Stórt högg fyrir „aflands-heiminn“

Í gögnunum koma við sögu fjölskyldur og samstarfsmenn núverandi og …
Í gögnunum koma við sögu fjölskyldur og samstarfsmenn núverandi og fyrrverandi ráðamanna, s.s. Bashar al-Assad, forseta Sýrlands. AFP

Panamaskjölin eru 11 milljón talsins og var lekið frá einu leyndardómsfyllsta fyrirtæki heims, lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama. Í skjölunum koma við sögu 72 núverandi og fyrrverandi þjóðarleiðtogar, en skjölin sýna m.a. hvernig Mossach Fonseca aðstoðaði viðskiptavini sína við peningaþvott og skattaundanskot.

Þetta kemur fram í frétt BBC.

Alls hafa 107 fjölmiðlafyrirtæki í 78 ríkjum haft gögnin til skoðunar, þeirra á meðal BBC og Guardian, en fram kemur í frétt BBC að miðillinn hafi ekki upplýsingar um hver lak þeim.

BBC hefur eftir Gerard Kyle, framkvæmdastjóra ICIJ, International Consortium of Investigative Journalists, að gögnin nái til daglegs reksturs Mossack Fonseca sl. 40 ár.

„Ég tel að lekinn muni líklega reynast eitt stærsta höggið sem aflandsheimurinn hefur fengið á sig vegna umfangs gagnanna,“ segir hann.

Gögnin eru m.a. sögð geyma upplýsingar um aflandsfélög tengd fjölskyldum og samstarfsmönnum Hosni Mubarak, fyrrverandi forseta Egyptalands, Múammar Gaddafi, fyrrverandi einræðisherra Líbíu, og Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

Í frétt BBC segir einnig frá því að þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, tók sæti á þingi greindi hann ekki frá eignarhlut sínum í aflandsfélaginu Wintris, sem skráð er á Bresku Jómfrúareyjum.

Átta mánuðum síðar hefði hann hins vegar selt eiginkonu sinni hlutinn á einn dollar.

Í kjölfar uppljóstrana um Wintris hefði verið kallað eftir afsögn ráðherra.

Umfjöllun BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert