Bjarni mætir ekki á þingfund í dag

Frá þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í morgun.
Frá þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, missti af flugi frá Bandaríkjunum í gær vegna seinkunar á tengiflugi innanlands og er því ekki væntanlegur til landsins fyrr en á morgun. Mun Bjarni þar með missa af þingfundi í dag sem hefst klukkan 15:00. Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður Bjarna, staðfestir þetta við mbl.is.

Allir þingflokkar hafa fundað í dag vegna umfjöllunar Kastljóss í gær um leka á svokölluðum Panamaskjölum, en þar kom meðal annars fram að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefði ásamt konu sinni verið skráður fyrir aflandsfélagi og selt hlut sinn í félaginu degi áður en CFC-skattareglur um aflandsfélög tóku gildi. Þá kom einnig fram að Bjarni hefði átt í öðru aflandsfélagi. Hefur fréttin um Sigmund verið meðal efstu frétta í fjölmörgum erlendum fjölmiðlum frá því að umfjöllunin fór fram í gærkvöldi.

Stjórnarandstaðan hefur gefið út að vantrauststillaga á forsætisráðherra verði lögð fram í dag. Óundirbúinn fyrirspurnartími hefst á alþingi klukkan 15:00 og gert er ráð fyrir að Sigmundur muni sitja þar fyrir svörum. Ljóst er að Bjarni verður fjarverandi.

Frá þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í morgun.
Frá þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert