Ekki íhugað að segja af sér

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist ekki ætla að segja af sér vegna uppljóstrana um aflandsfélag í eigu hans og konu hans. Hann biðst þó afsökunar á að hafa staðið sig „ömurlega“ í viðtali við Kastljós þar sem hann var spurður um félagið.

„Ég hef hvorki íhugað að hætta út frá þessu máli né ætla ég að hætta út frá þessu máli,“ sagði Sigmundur Davíð í viðtali í aukafréttatíma Stöðvar 2 í hádeginu.

Forsætisráðherra sagðist þegar búinn að gera grein fyrir öllu því sem kom fram í umtöluðum Kastljósþætti gærkvöldsins varðandi aflandsfélagið Wintris sem hann og eiginkona hans eiga á Tortóla. Lagði hann áherslu á að félagið hefði aldrei verið í skattaskjóli enda hefði kona hans alltaf greitt skatta af því hér á landi. Það væri því ekki aflandsfélag í þeim skilningi.

Hann viðurkenndi að hafa staðið sig „ömurlega“ í viðtali við sænska ríkisútvarpið og fréttamann Reykjavík Media þar sem hann var spurður um Wintris. Útskýrði hann frammistöðu sína með því að spurningar fréttamannanna hefðu komið flatt upp á sig þar sem hann hefði verið boðaður í viðtalið til að ræða allt aðra hluti. Baðst Sigmundur Davíð afsökunar á frammistöðu sinni í viðtalinu, þrátt fyrir að hann hefði upplifað sig blekktan.

Fréttamaður Stöðvar 2 spurði Sigmund Davíð þá hvort hann þyrfti að biðjast afsökunar á fleiri hlutum í tengslum við málið. Forsætisráðherra sagðist hafa reynt að gera grein fyrir öllum staðreyndum í málinu og endurtók fullyrðingu sína um að hann hefði verið skráður fyrir helmingshlut í félaginu fyrir mistök sem síðar hefðu verið leiðrétt. Eignirnar hefðu alltaf verið konu hans. 

Sagðist hann auðvitað vilja að kona hans hefði ekki átt erlent félag. Hann viðurkenndi að málið liti illa út fyrir sig en benti á að hafa þyrfti í huga að þetta hefði nánast verið almennt stundað af fólki sem átti peninga. Hvorki hann né kona hans hefðu haft vit á hvernig þessir hlutir gengju fyrir sig.

Sigmundur Davíð neitaði því að hafa orðið tvísaga í viðtalinu í Kastljósi um hvort hann ætti félag í skattaskjóli. Spurningarnar hefðu komið í kjölfar umræðu um skattaskjól og fullyrti hann að Wintris hefði aldrei verið í skattaskjóli.

Hann sagðist skilja að sumir væru reiðir vegna málsins þó að margir væru líka að reyna að skilja upp eða niður í því. Boðuð mótmæli á Austurvelli myndu ekki breyta afstöðu hans til afsagnar. Hann myndi hlusta á afstöðu fólks í næstu kosningum.

Fréttamaður Stöðvar 2 spurði Sigmund Davíð einnig hvort hann treysti ekki íslensku krónunni sem hann hefði þó lofað opinberlega. Svaraði ráðherrann því til að þau hjónin hefðu séð fram á að búa áfram erlendis þegar félagið var stofnað. Þau hefðu fyrir vikið gert ráð fyrir að eignir þeirra væru í þeim gjaldmiðli sem notaður væri þar sem þau byggju.

Í máli Sigmundar Davíðs kom ennfremur fram að eiginkona hans hafi þegar afhent formlega staðfestingu á því að hún hafi alltaf greitt alla sína skatta.

„Reyndar ætti það ekki að koma á óvart því hún er búin að vera á listum yfir skattgreiðendur alveg frá því að hún eignaðist þessa peninga,“ sagði forsætisráðherra.

Frétt Vísis um viðtalið við forsætisráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert