„Viljum bara burt með þessa stjórn“

Pétur Jóhannesson mætti með skilti niður á Austurvöll. - Ég …
Pétur Jóhannesson mætti með skilti niður á Austurvöll. - Ég er kominn hingað til að hjálpa honum Sigmundi til að segja af sér sem forsætisráðherra, sagði hann. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

 „Siðblindur Davíð“, „Svikmundur segðu af þér“, „Bless $1MM1“ – nafn forsætisráðherra fékk á sig ýmsar myndir á skiltum mótmælenda sem fylltu Austurvöll nú síðdegis og ljóst að margir höfðu lagt á sig töluverða vinnu við að tjá skoðanir sínar, en einnig var að finna spýtur og spjöld fyrir þá sem vildu útbúa skilti á staðnum.

Pétur Jóhannesson var einn þeirra sem mættu með skilti niður á Austurvöll. „Ég er kominn hingað til að hjálpa honum Sigmundi til að segja af sér sem forsætisráðherra,“ sagði hann. „Mér þykir hann hafa blekkt okkur þjóðina og kjósendur sína og þess vegna er ég hér.“

Vík burt ríkisstjórn

Hróp um vanhæfa ríkisstjórn heyrðust reglulega frá mótmælendum, þó ekki myndaðist sama stöðuga mantran og í búsáhaldabyltingunni. Önnur hróp heyrðust einnig, til að mynda „Vík burt ríkisstjórn“ og þá barst  stöðugur trommusláttur frá olíutunnum sem stillt hafði verið upp við girðinguna framan við þinghúsið.

Trommurnar þögnuðu einungis fyrir Illuga Jökulssyni sem fékk dynjandi lófatak fyrir ræðu sína. „Ég skammast mín núna fyrir að aðeins sjö árum og tveimur mánuðum eftir að við ætluðum að snúa við blaðinu þá sitjum við uppi með silkihúfur sem ljúga,“ sagði Illugi og kvað stjórnvöld ákveða markvisst og samviskulaust að leyna hagsmunum sínum, auk þess að svara með útúrsnúningum, hótfyndni og þögn þegar leitað væri svara.

Taktfastur sláttur barst ekki einungis frá olíutunnunum, heldur voru pottar, járnrör og hefðbundnar trommur einnig slegnar. Á svæðinu mátti m.a. sjá uppáklæddan hóp frá Víkingafélagi Hafnafjarðar sem sló á skinntrommur og blés í horn. „Það er hópferð frá okkur að mótmæla,“ sagði brosandi stúlka í hópi víkinganna.

Sigurður Jóhannsson og Margrét Runólfsdóttir eru búin að fá nóg. …
Sigurður Jóhannsson og Margrét Runólfsdóttir eru búin að fá nóg. - Við viljum bara burt með þessa stjórn, segja þau. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þá pakka ég niður og hætti að vera Íslendingur

Þau Sigurður Jóhannsson og Margrét Runólfsdóttir voru einnig komin til að mótmæla. „Við erum búin að fá nóg eina ferðina enn,“ sagði Sigurður. „Alveg komin með upp í kok,“ segir Margrét. „Við viljum bara burtu með þessa stjórn.“ bætir hún við. „Sigmundur er ekkert einn. Burt með þetta lið sem hagar sér illa eins og í þessu tilfelli,“ segir Sigurður og kveður þau bæði hafa tekið þátt í búsáhaldabyltingunni.

„Maður fylltist bara algjöru vonleysi í gær,“ segir Margrét. „Hvað er í gangi? Ég setti inn á Facebook síðu mína og ég held að ég þurfi að standa við það, að ef hún [ríkisstjórnin] segir ekki af sér strax, þá pakka ég niður og er farin og er hætt að vera Íslendingur.“

Varð frá að hverfa vegna fjöldans

Mikill fjöldi fólks var mættu á Austurvöll til að taka þátt í mótmælunum sem boðuð voru á milli fimm og sex. Ýmsum tölum um fjölda var fleygt á loft og sagði einn lögreglumanna sem rætt var við hafa heyrt af talningu upp á 23.000 manns. „Austurvöllur var líka alveg stappaður, og það var fólk í öllum hliðargötum,“ sagði hann. „Ég sá fólk hverfa frá því það komst einfaldlega ekki inni á svæði.“

Þær Jóhanna, Soffía og Jóhanna voru í hópi mótmælendanna sem mættu síðdegis. „Þetta í gær var dropinn sem fyllti mælinn. Það er ýmislegt sem þeir eru búnir að vera að gera sem að maður er ekki sammála. Fjárskortur í heilbrigðiskerfinu -það er ekkert að gerast varðandi byggingu nýs spítala,“ sagði önnur Jóhannan kveðst einnig vera ósátt við stefnuleysi í málefnum ferðamanna. Allar þrjár voru þær sammála um að ríkisstjórnin ætti að víkja og engin þeirra tók þátt í búsáhaldabyltingunni fyrir sjö árum. „En það þýðir ekki að við höfum ekki fylgst með úr fjarska,“ sagði Soffía.

Þær Soffía, Jóhanna og Soffía segja fréttir gærdagsins hafa verið …
Þær Soffía, Jóhanna og Soffía segja fréttir gærdagsins hafa verið dropann sem fyllti mælinn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Flestir sem rætt var við á Austurvelli í dag voru þar til að mótmæla, ef ekki eru taldir með þeir erlendu ferðamenn sem munduðu síma og myndavélar af miklum móð, mismeðvitaðir um hvað gengi á. Sumir Íslendinganna sem rætt var við viðurkenndu líka að jú, vissulega væru þeir komnir til að mótmæla, en þeir hefðu líka verið forvitnir að sjá hve margir myndu mæta. Símar sáust enda víða á lofti og ljóst að margir kusu að festa samkomuna á mynd þegar hvað fjölmennast var.

„Egg, egg, vill einhver egg?

Kaffihúsin við Austurvöll voru líka þétt setin og og má telja ljóst að góða veðrið hafi ekki latt fólk til að taka þátt. Veitingahús og skyndibitastaðir í nágrenni Austurvallar fylltust líka er formlegum mótmælum lauk upp úr sex og stór hluti mótmælenda hélt heim á leið. Ungliðahreyfing Vinstri grænna hafði meira að segja komið upp kaffiborði við Austurvöll, þar sem kaffiþyrstum var boðið upp á sopa.

„Egg, egg, vill einhver egg?“ spurði ungur drengur sem gekk um með eggjabakka þegar að verulega hafði fækkað í hópi mótmælenda. Ekki var að sjá að neinn tæki stráksa á orðinu, þó sjá mætti egg fljúga úr hópi mótmælenda í átt að þinghúsinu, sem var orðið verulega sóðalegt útlits. Lögreglumenn voru líka nú komnir út á meðal mótmælenda til að tryggja að allt héldi áfram að fara friðsamlega fram. Bleik blys loguðu einnig um stund og við og við mátti heyra flugelda springa í nágrenni Austurvallar, þar sem að þungur trommuslátturinn dundi áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert