Mótmæli þriðja daginn í röð

Frá mótmælunum á mánudaginn.
Frá mótmælunum á mánudaginn. mbl.is/Kristján

Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli þriðja daginn í röð en það er hópurinn Jæja sem stendur fyrir þeim. Krafa mótmælenda er að boðað verði til kosninga. 

Mörg þúsund manns komu saman á Austurvelli á mánudaginn og kröfðust afsagnar forseta. Þá komu einnig fjölmargir saman fyrir utan þinghúsið í gær en einnig var mótmælt fyrir utan hús Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. 

Á Facebook-síðu þar sem boðað er til mótmælanna segir: 

„Fullkomin óvissa og upplausn ríkir nú í landinu. Stjórnvöld hafa hafa sýnt okkur ítrekað getuleysi í störfum sínum og eru augljóslega óhæf til að stjórna landinu. Komum saman á Austurvelli kl 17:00 og krefjumst þess að boðað verði til kosninga.

Fjölmennustu mótmæli í sögu landsins síðasta mánudag voru ekki aðeins áminning til þeirra stjórnarflokka sem nú eru um það bil að hrökklast úr valdastólum. Mótmælin eru áminning til allra stjórnmálaflokka.

Áminning um að virða almennt siðferði og lýðræðislegan vilja landsmanna. - Almennir borgarar á Íslandi eru farnir að þekkja mátt sinn, mátt sem getur tryggt okkur lýðræði til frambúðar. Við eigum þetta land og það er skylda okkar að sjá til þess að mikilvægum gildum sé haldið á lofti, þá sérstaklega á Alþingi.

Höldum vöku okkar. Byggjum upp heilbrigt samfélag með almannahagsmuni að leiðarljósi, sanngirni og lýðræði. Krefjumst kosninga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert