Hjónin tilbúin að birta gögnin

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona hans.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona hans. Steinþór Guðbjartsson

Sigmundur Davíð Gunnalugsson, fráfarandi forsætisráðherra, segist hafa haft „efasemdir um að stjórnmálamenn ættu að láta ýta sér út í að birta persónuleg gögn, ekki hvað síst sem varða ættingja og maka“. Sigmundur Davíð segir konu sína reiðubúna að birta frekari gögn um skattamál þeirra hjóna ef aðrir forystumenn stjórnarflokkanna geri slíkt hið sama.

„Ég hvarf síðan frá því prinsippi, ef svo má segja, og við veittum mjög ítarlegar upplýsingar um mál konunnar minnar,“ segir Sigmundur Davíð og vísar til félagsins Wintris, sem er í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu hans.

Sigmundur Davíð segir svonefnda CFC-löggfjöf, sem tekin var upp á Íslandi í ársbyrjun 2010, ná til rekstrarfélaga. Samkvæmt henni ber innlendum eigendum erlendra félaga, sjóða eða stofnana sem staðsett eru á lágskattasvæðum að greiða skatt vegna hagnaðar sem myndast hjá lögaðilanum og ekki hefur verið úthlutað til eigenda CFC-félagsins.

Umrætt félag, Wintris, hafi ekki verið rekstrarfélag. Samt hafi endurskoðandi eiginkonu hans unnið fyrir hana skattframtali með sundurliðað yfirliti yfir eignir félagsins frá því áður en þessi löggjöf tók gildi. Því hafi skilyrðin ávallt verið uppfyllt og kona sín ætíð greitt skatta í samræmi við við lög og meira að segja byrjað að skila sundurliðuðu yfirliti að eigin frumkvæði áður en krafa var um slíkt.

Sigmundur Davíð segir konu sína reiðubúna að birta frekari gögn um skattamál þeirra hjóna ef aðrir forystumenn stjórnarflokkanna geri slíkt hið sama.

„Algjörlega litið framhjá skýringum“

Fram kom í Kastljósþætti um Panamaskjölin 3. apríl að Sigmundur Davíð hefði selt konu sinni helminginn í félaginu á 1 dollara í árslok 2009, áður en CFC-löggjöfin var innleidd á Íslandi. Sigmundur bendir á að gerð hafi verið gert grein fyrir sölunni í skýringum þeirra hjóna löngu áður en þátturinn var sýndur.

„Það var reynt að gera mikið úr samningi um að ég seldi eiginkonu minni hlut í félaginu á einn dollar og algjörlega litið framhjá þeim skýringum sem fram höfðu komið löngu áður en þátturinn var sýndur. Ég veit reyndar líka af því að þeir sem gerðu þáttinn höfðu fengið upplýsingar sem staðfestu skýringar okkar hjóna en kosið að líta framhjá því rétt eins og því sem við höfðum sjálf gert grein fyrir.

Ljóst var frá upphafi að Anna ætti fyrirtækið þótt gefin hafi verið út hlutabréf á okkur bæði, líklega vegna þess að við höfðum verið með sameiginlegan bankareikning. Þetta kom í ljós þegar skipt var um umsýslufyrirtæki árið 2009. Nýja umsýslufyrirtækið veitti því athygli að á eyðublaði sem konan mín skilaði kom fram að hún væri eini eigandinn. Þeir sendu þá póst þar sem bent var á að Sigmundur Gunnlaugsson væri líka skráður fyrir hlutabréfi í fyrirtækinu og spurðu hvort það ætti að vera svoleiðis. Það var svo leiðrétt í framhaldinu.“

Eignaðist kröfu á móti

„Strax í upphafi hafði þó hluturinn sem skráður var á mig verið einskis virði. Ástæðan var sú að konan mín setti eignir sínar inn í fyrirtækið og eignaðist á móti kröfu á það sem nam sömu upphæð. Fyrirtækið sjálft var því á núlli og verðmæti hlutabréfanna eftir því.

Eftir að í ljós kom að við hefðum bæði verið skráð fyrir hlutabréfum fór leiðréttingin þannig fram að ég afsalaði mér bréfinu sem skráð hafði verið á mig á einn dollar, en í breskum rétti „Common Law“ þarf gagngjald að koma fyrir ef eign er afsalað til að samningur sé gildur. Þetta var því bara nauðsynlegt formsatriði til að staðfesta leiðréttinguna. Eins og áður hefur komið fram hafði þetta engin skattaleg áhrif og hafði ekkert með gildistöku svo kallaðra CFC-reglna að gera enda hafði verið birt sundurliðað yfirlit yfir eignir félagsins áður en það varð skylda og áður en þessi lagfæring var framkvæmd,“ segir Sigmundur Davíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert