Hefja gjaldtöku á bílastæði við Reynisfjöru

Frá Reynisfjöru.
Frá Reynisfjöru. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Félagið Bergrisi ehf. og Reynisfjara hafa gert með sér samning um uppsetningu á stöðumælastaurum við Reynisfjöru, en hingað til hefur ekki verið tekið gjald fyrir þá þjónustu. Búnaðurinn og lausnin byggist á íslensku hugviti fyrir íslenskar aðstæður, segir í fréttatilkynningu. Áætlað er að búnaðurinn verði tekinn í notkun í sumar.

 Hönnun búnaðarins mun líkjast stuðlabergi og þola þau veðurskilyrði sem eru við Reynisfjöru, allan ársins hring. Hægt verður að greiða með kredit- og debetkortum sem og með QR kóða lestri á forseldum bílastæðamiðum og bílastæðakortum.

Í fréttatilkynningu er haft eftir Guðlaugi Magnússyni framkvæmdastjóra Bergrisa að samningurinn marki það skref sem einkaaðilar þurfa að taka í tengslum við uppbyggingu ferðaþjónustunnar. „Markmið Bergrisa ehf. er að auðvelda framkvæmdar- og þjónustuaðilum í ferðamannageiranum sem og öðrum að innheimta fyrir þær framkvæmdir sem nauðsynlegar eru eins og bílastæði og salernisaðstöðu til að mynda. Hugvit Bergrisa mun auðvelda þá vegferð að veita ferðamönnum eins góða þjónustu og við viljum og okkur íslendingum ber að veita. Mikil og metnaðarfull uppbygging þarf að eiga sér stað við Reynisfjöru hvað varðar öryggi, hreinlæti og þjónustu við gesti staðarinn. Hugbúnaðar og vélbúnaðar lausnir Bergrisa ehf. munu auðvelda þá uppbyggingu. Gjaldtaka er nauðsynleg svo að uppbygging á ferðamannastöðum verði að veruleika.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert