Skemma fyrir nýrri ríkisstjórn

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Ef hann þarf einhverja afsakanir fyrir því að halda sínum gögnum leyndum þá finnur hann þær væntanlega. Ég er algerlega til í að birta skattframtölin ef það hjálpar einhverjum til að gera hreint fyrir sínum dyrum,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.

Tilefnið eru þau ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, í Morgunblaðinu um helgina að hann sé reiðubúinn að birta skattframtöl sína og eiginkonu sinnar að því gefnu að forystumenn annarra stjórnmálaflokka geri slíkt hið sama.

„Ég skil hins vegar ekki hvers vegna þetta snýr að öðrum. Þetta hlýtur að snúa fyrst og fremst að þeim sem málið snýr að. En ég er til í hvað sem er ef það hjálpar mönnum að komast út úr einhverjum svona fyrirslætti,“ segir Árni Páll ennfremur.

Spurður hvernig fjárlagavinna vegna næsta árs komi heim og saman við fyrirhugaðar þingkosningar í haust segir Árni það einmitt vera rök fyrir því að kjósa frekar í vor. Með tilliti til fjárlagavinnu sé hins vegar rétt að kjósa alls ekki seinna en í september.

„Ef það dregst lengur eru menn farnir að skemma fyrir möguleikum nýrrar ríkisstjórnar til þess að hafa áhrif á gerð fjárlaga.“ Þá sé mikilvægt að sem fyrst liggi fyrir hvenær kosningarnar fari fram. Óboðlegt sé að það sé látið hanga í lausu lofti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert