Halla og Al Gore meðal þátttakenda

Halla Tómasdóttir hefur boðið sig fram til embættis forseta Íslands.
Halla Tómasdóttir hefur boðið sig fram til embættis forseta Íslands. Mynd/Aðsend

Halla Tómasdóttir forsetaframbjóðandi mun taka þátt í pallborðsumræðum á hinni virtu ráðstefnu Skoll World Forum sem hefst í Oxford í Englandi á morgun og stendur fram á föstudag. Þekktir leiðtogar, athafnamenn og frumkvöðlar frá 65 löndum munu taka þátt í ráðstefnunni. Auk Höllu eru Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands, og Dalai Lama meðal þeirra sem tala.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Ráðstefnan snýst um að fá virta einstaklinga frá fjölda landa til að tala um framtíðina og hvernig breyta má heiminum til betri vegar. Meðal umræðuefna eru efnahagsleg tækifæri í framtíðinni, sjálfbærni í umhverfismálum, mennta- og heilsufarsmál, mannréttindi og friður.

Pallborðsumræðurnar, sem Halla tekur þátt í, munu fjalla um forystu á umrótatímum þar sem sérstaklega er talað um mikilvægi kvenna í áhrifastöðum.

Stofnandi eBay á bakvið ráðstefnuna

Jeff Skoll, stofnandi eBay, er einnig stofnandi Skoll Foundation sem stendur að ráðstefnunni. Mikill áhugi er fyrir henni  og munu stærstu fjölmiðlar heims fylgjast grannt með henni, að því er segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að líklegt megi telja að mikill áhugi verði á atburðum síðustu viku á Íslandi, sem hafa verið í brennidepli fjölmiðla víðs vegar um heim undanfarna daga, og líklegt að Halla verði spurð um stöðu mála og framtíðarsýn hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert