Ákært í stórfelldu fíkniefnamáli

Mennirnir eru ákærðir fyrir innflutning á samtals 19,4 kílóum af …
Mennirnir eru ákærðir fyrir innflutning á samtals 19,4 kílóum af amfetamíni og 2,6 kílóum af kókaíni frá Hollandi. Júlíus Sigurjónsson

Fjórir karlmenn hafa verið ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa í september á síðasta ári staðið saman að innflutningi á samtals 19,4 kílóum af amfetamíni og 2,6 kílóum af kókaíni frá Hollandi. Tveir mannanna eru frá Hollandi en tveir þeirra eru frá Íslandi. 

Annar hollensku mannanna sem er 29 ára gamall ók bíl frá Hollandi til Danmerkur þaðan sem hann tók farþegaferjuna Norrænu til Seyðisfjarðar seinni part september árið 2015. Voru fíkniefni falin í sérútbúnum geymsluhólfum undir framsætum og í miðjustokk bifreiðarinnar sem var af gerðinni Volkswagen Touran. Maðurinn keyrði svo til Hafnar í Hornafirði og þaðan til höfuðborgarsvæðisins daginn eftir. Þar gisti hann í eina nótt en hélt svo út á Keflavíkurflugvöll þar sem hann lagði bifreiðinni í skammtímastæði og hélt af landi brott.

Maðurinn kom svo þremur dögum seinna aftur til landsins og tók þá bílinn og ók honum að bænum á Vatnsleysuströnd þar sem fjarlægja átti fíkniefnin. Voru maðurinn og hinn Hollendingurinn, sem er 55 ára, handteknir þar og fundust fíkniefnin við leit í bílnum.

Hollenski maðurinn sem flutti efnin til landsins kom með Norrænu …
Hollenski maðurinn sem flutti efnin til landsins kom með Norrænu í september í fyrra. mynd/Einar Bragason

 Hinn Hollendingurinn er ákærður fyrir að hafa undirbúið og aðstoðað þann sem flutti efnin til landsins við báðar ferðir hans, meðal annars með að bóka gistingu og að hafa ætlað að aðstoða hann við að fjarlægja efnin úr bílnum. Ætlunin var svo að koma efnunum áleiðis til annars Íslendingsins sem ákærður er í málinu á bílastæðinu við Bláa lónið.

Íslendingarnir báðir eru ákærðir fyrir að hafa lagt á ráðin um innflutning og að hafa fjármagnað að hluta kaupin á fíkniefnunum og kostnað við innflutning þeirra. Þeir eru á aldrinum 28 til 39 ára. Kaupin voru fjármögnuð með greiðslum beggja mannanna inn á 30 Ikort yfir tveggja mánaða tímabil að upphæð 9,1 milljón. Voru fjárhæðirnar teknar út úr hraðbönkum víða í Evrópu á sama tímabili, alls 8 milljónir.

Þess er krafist að mennirnir fjórir verði dæmdir til refsingar auk þess að fíkniefnin verði gerð upptæk sem og bifreiðin sem notuð var til innflutningsins. Þá fundust 15.600 evrur í reiðufé í bíl annars Íslendingsins sem einnig er farið fram á að verði gerðar upptækar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert