Nágranni felldi tré í óþökk eigendanna

Nágranni fólks við Laugarásveg fór inn á lóð þess og …
Nágranni fólks við Laugarásveg fór inn á lóð þess og felldi þar tré í leyfisleysi. Fólkið hefur kært málið. mbl.is/Golli

„Mér er litið út um bakherbergisgluggann á húsinu hjá okkur á laugardag og þá sé ég að þetta tré er farið,“ segir Richard Kristinsson, einn eigenda húss að Laugarásvegi í Reykjavík, en nágranni hans hafði farið inn í garð hans og fellt þar stórt og veglegt tré í leyfisleysi. Málið var kært til lögreglu í gær.

Leyfi þarf frá garðyrkjustjóra Reykjavíkur til að fella tré á eignarlóðum sem eru eldri en 60 ára eða hærri en átta metrar. Eigendur höfðu ekki sótt um slíkt leyfi en tréð sem um ræðir var mun hærra en átta metrar, að sögn Richards.

Allt skjól farið fyrir bí

„Nágranni minn hafði samband við mig og eiganda íbúðarinnar fyrir ofan mig og tjáði okkur að hann væri að fella tvö tré í garðinum hjá sér. Spurði hann í framhaldinu hvort við vildum ekki láta taka tréð í okkar garði í leiðinni. Við sögðum nei,“ segir Richard sem segir þá báða hafa tjáð manninum að ekki væri hægt að taka slíka ákvörðun án þess að eigendur hússins ræddu saman og kæmust að sameiginlegri niðurstöðu. Nágrannanum var einnig sagt að eigendur þyrftu að sækja um leyfi hjá garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar áður en tré af þessari stærð yrði fellt.

„Síðan heyrist ekkert meira frá manninum,“ bætir Richard við en því næst hafi tréð verið fellt í óþökk eigenda og garðyrkjustjóra og öll verksummerki afmáð áður en eigendur urðu þess varir.

„Þetta hefur þá þýðingu að ekkert skjól er nú fyrir austanáttinni, bein sjónlína hefur opnast inn í svefnherbergi okkar og morgunsólin skín skært inn sem hefur aldrei gerst áður,“ segir Richard sem segir að ekkert skjól sé nú á sólpalli þeirra né á svölum nágrannanna.

Munu leita réttar síns

Lögreglan hefur ekki hafið rannsókn á málinu enn vegna þess fjölda mála sem bíða afgreiðslu. Málið er þó skráð sem eignaspjöll samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Reykjavík.

Richard segist ekki vita nafn nágrannans sem felldi tréð í leyfisleysi en eigendur hússins séu komnir í samband við lögmann og muni leita réttar síns og óska eftir skaðabótum.

Úrræðin eru að fara í mál

Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, segir algengt að fólk leiti til hans vegna óánægju með trjágróður nágranna sinna. „Skugginn fellur þá eingöngu hjá nágranna eða trén standa of nálægt lóðarmörkum hans,“ segir hann sem dæmi um efni kvartana.

„Þau reyna að fá einhverja aðstoð hjá okkur en úrræðin eru engin nema að fara í mál,“ segir Þórólfur en auðvitað sé alltaf best ef nágrannar geti leyst úr deilum með samtölum eða samkomulagi. „Það vantar einfaldar lausnir fyrir fólk sem leiða svona mál til lykta,“ bætir hann við en löggjafinn hafi ekki enn orðið við því kalli. Segir hann dóma hafa fallið í slíkum deilumálum þar sem eiganda var gert að fjarlægja tré.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert