Jökulsárlón í opið söluferli fljótlega

Við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.
Við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. mbl.is/Ómar

Sýslumaðurinn á Suðurlandi tilkynnti í morgun ákvörðun sína um að setja jörðina Fell, sem meðal annars á um helming Jökulsárlóns, á sölu á almennum markaði. Enn á þá eftir að ákveða utanumhald á þeirri framkvæmd en hún verður kynnt á næstu vikum. Þetta staðfestir Anna Birna Þráinsdóttir, sýslumaður á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.

Anna segir að þetta verði niðurstaða málsins nema ákvörðun embættisins verði beint til dómstóla. Segir hún að boðað verði til fundar milli landeigenda og sýslumanns á næstunni til að fara yfir stöðuna. Segir hún ákvörðun um framkvæmdina tekna á næstu vikum. „Þetta er ekki mánaðarspursmál,“ segir Anna.

Í morgun fór fram annað stig nauðungarsölu og var ákvörðunin kynnt þar.Þann 10. mars sl. féllst sýslumaður­inn á beiðni um nauðung­ar­sölu til slita á sam­eign á jörðinni Fell í Aust­ur-Skafta­fells­sýslu. Jörðin er alls 10.528 hekt­ar­ar og eru land­eig­end­ur, sem eiga jörðina í sam­ein­ingu, um 40 tals­ins. Rekja má þennan mikla fjölda til óskipts dánarbús. Jörðinni til­heyr­ir jafn­framt um helm­ing­ur Jök­uls­ár­lóns til móts við ís­lenska ríkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert