Munu samþykkja tillögu um fjárhaldsstjórn

Skuld­ir Reykja­nes­bæj­ar voru um 41 millj­arður í lok síðasta árs, …
Skuld­ir Reykja­nes­bæj­ar voru um 41 millj­arður í lok síðasta árs, eða u.þ.b. 2,75 millj­ón­ir á hvern íbúa. Ómar Óskarsson

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir að ef engar stórkostlegar breytingar verði næstu daga muni meirihluti bæjarstjórnar samþykkja tillögu meirihluta bæjarráðs Reykjanesbæjar á fundi sínum á þriðjudag og leggja til við innanríkisráðuneytið að sveitarfélaginu verði skipuð fjárhaldsstjórn strax daginn eftir.

Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is. Hann segist gera ráð fyrir að ekki muni taka langan tíma að skipa stjórnina þar sem innanríkisráðuneytið sé þegar upplýst um málið. Á hann allt eins von á því að hægt verði að skipa stjórnina á miðvikudag í næstu viku.

Skuld­ir Reykja­nes­bæj­ar voru um 41 millj­arður í lok síðasta árs, eða u.þ.b. 2,75 millj­ón­ir á hvern íbúa. Róður­inn í rekstri bæj­ar­fé­lags­ins hef­ur verið þung­ur. Fram kom í til­kynn­ingu Reykja­nes­bæj­ar til Kaup­hall­ar­inn­ar í byrj­un októ­ber að nei­kvæð rekstr­arniðurstaða A + B hluta sam­stæðu í ár muni hækka úr 410,9 millj­ón­um í 716,2 millj­óna nei­kvæða niður­stöðu.

Frétt mbl.is: Óska eftir fjárhagsstjórn

Frétt mbl.is: Fjárhagsstjórn í myndinni

„Hún mun þá væntanlega taka yfir fjárhagsstjórn bæjarins og nýta til þess þau lög og þær heimildir sem slík nefnd hefur í verkfærakistunni sinni og getur beitt sem við höfum ekki en þeir hafa og það er kannski munurinn á því sem við höfum verið að gera og svo aftur sem þau geta gert,“ segir Kjartan Már.

Geta gripið til greiðslustöðvunar

Aðspurður segir bæjarstjórinn að fjárhaldsstjórn geti gripið til ýmissa aðgerða sem bærinn gat ekki nýtt sér. Nefnir hann sem dæmi að stjórnin hafi, líkt og þegar fyrirtæki verður gjaldþrota eða fer í gjaldþrotameðferð, möguleika á greiðslustöðvun afborgana af lánum.

„Þeir hafa þannig úrræði sem að þeir munu líklegast beita strax á meðan að þeir eru að setja sig inn í stöðuna,“ segir Kjartan Már. Hann gerir ráð fyrir að meðlimir stjórnarinnar muni þurfa einhvern tíma, vikur eða mánuði til að setja sig inn í stöðu mála.

„Þetta eru nýir aðilar, við erum búin að vinna í þessu í meira en eitt og hálft ár og þekkjum málið orðið nokkuð vel. Ég geri ráð fyrir að þetta verði hæfir einstaklingar sem verði snöggir að því að ná að mynda sér skoðun og góða mynd. Hvað þeir gera síðan veit ég ekki,“ segir hann einnig.

Vonar að íbúar finni ekki fyrir breytingum

Kjartan Már gerir ráð fyrir að hann og fleiri á bæjarskrifstofunni muni vinna náið með nefndinni. „Það er í gildi fjárhagsáætlun sem við erum að vinna eftir á þessu ári, sem að hefur verið samþykkt. Við höldum okkar striki, nema nefndin ákveði eitthvað annað,“ segir hann.

Munu íbúar finna fyrir einhverjum breytingum?

„Ég vona ekki. Ég þori ekki að segja neitt um það. Það hefur ekkert sveitarfélag af þessari stærðargráðu lent í þessari stöðu áður þannig að það er ekkert fordæmi,“ segir Kjartan Már.

Í fe­brú­ar árið 2010 skipaði ráðuneyti sveit­ar­stjórna­mála sér­staka fjárhaldsstjórn til að greiða úr skulda­vanda Álfta­nes­bæj­ar. Heild­ar­skuld­irn­ar voru í árs­lok 2009 um 7,3 millj­arðar króna.

Kjartan Már segir að vandamál Álftaness hafi verið af öðrum toga en sveitarfélagið var að lokum sameinað Garðabæ. Hann segir að slíkt úrræði sé ekki mögulegt í þeirra tilviki. „Við erum stærsta sveitarfélagið hér, þannig að það er ekkert fordæmi. Þetta verður bara verkefni sem þarf að vinna,“ segir hann.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert