Greiddi bakara verkamannalaun

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Hæstiréttur dæmdi í gær bakarí til þess að greiða fyrrverandi starfsmanni sínum rúmar tvær milljónir króna í vangoldin laun auk dráttarvaxta og málskostnaðar upp á 1,2 milljón króna. Sneri Hæstiréttur þar með við dómi Héraðsdóms Suðurlands sem hafði áður sýknað bakaríið.

Forsaga málsins er sú að starfsmaðurinn, sem er menntaður bakari, var ráðinn til starfa við bakaríið í maí 2012 og lét af störfum í lok júlí árið eftir. Enginn ráðningarsamningur var gerður en á launaseðlum kom fram að um dagvinnu bakara væri að ræða. Maðurinn, sem er með sveinspróf í bakaraiðn, fékk hins vegar ekki greidd laun sem bakari heldur sem almennur verkamaður.

Maðurinn gerði athugasemd við þetta við vinnuveitanda sinn og varð niðurstaðan sú að hann léti af störfum eftir verslunarmannahelgina 2013. Úr varð þó að hann hætti fyrr en það. Bakaríið lagði áherslu á að maðurinn hefði ekki verið ráðinn sem bakari heldur almennur verkamaður. Fyrir vikið ætti ekki við kjarasamningur um kjör bakara heldur almennra verkamanna.

Hæstiréttur benti á að samkvæmt lögum bæri vinnuveitendum skylda til þess að skýra launþegum frá ráðningarfyrirkomulagi. Fyrir vikið yrði bakaríið að bera hallann af skorti á sönnun um efni ráðningarsambandsins.

„Þegar litið er til menntunar áfrýjanda sem bakara, að á launaseðlum hans var jafnan tilgreind dagvinna bakara, sem og að forsvarsmönnum stefnda auðnaðist ekki í skýrslugjöf fyrir héraðsdómi að útlista með trúverðugum hætti þann grundvallarmun sem væri á starfssviði bakara annars vegar og aðstoðarmanna þeirra hins vegar hefur stefnda ekki tekist að sanna að áfrýjandi hafi verið ráðin til almennra verkamannastarfa í bakaríi hans,“ segir ennfremur í dómsorði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert