Sögðu upp vegna óánægju með ráðningu

Sjúkrahúsið á Akureyri.
Sjúkrahúsið á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fjórir hjúkrunarfræðingar á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri sögðu upp störfum vegna óánægju með ráðningarferli nýs forstöðuhjúkrunarfræðings. Verið er að ganga frá ráðningu í stöður þeirra og segir forstjóri sjúkrahússins að mikil eftirspurn hafi verið vegna starfanna.

Þar sem búið sé að finna nýtt starfsfólk muni þjónustan ekki koma til með að skerðast.

Bjarni Jónasson, forstjóri sjúkrahússins, staðfestir að meðal hjúkrunarfræðinganna fjögurra sem sögðu upp séu umsækjendur um stöðu forstöðuhjúkrunarfræðings. „Sú sem var ráðin var metin hæf í þetta verkefni, fyrst og fremst er þetta stjórnunarstaða. Þetta er hjúkrunarfræðingur sem er með mikla reynslu af bráðahjúkrun,“ segir Bjarni.

Í Vikudegi segir að óánægja hjúkrunarfræðinganna hafi fyrst og fremst stafað af því að ekki hafi verið gerð krafa um sérmenntun í bráðahjúkrun. Þá menntun hafi hjúkrunarfræðingarnir haft og þeim hafi því fundist litið framhjá þeim við ráðningu í stöðuna.

Þeir hafa nú ráðið sig til annarra starfa. Haft er eftir hjúkrunarfræðingi, að óánægjan snúi ekki að nýjum forstöðuhjúkrunarfræðingi heldur að yfirstjórn spítalans, sem hann segir að hafi ekki gert kröfu um nægjanlega menntun í þessa stöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert