Tryggi hagsmuni almennings

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við erum að vinna að málaskránni. Hún verður auðvitað bara listi yfir mál sem við teljum nauðsynlegt að klára. Bæði mál sem eru í vinnslu og einnig einhver mál sem ekki hafa komið fram enn en er nauðsynlegt að ganga frá. Við fjármálaráðherra stefnum að því að setjast niður með forseta Alþingis eftir helgina og ræða í framhaldi hvernig við getum staðið að þessu.“

Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is spurður að því hvenær búast megi við því að ríkisstjórnin leggi fram skrá hennar yfir þau mál sem hún hyggst klára fyrir næstu þingkosningar sem stefnt er að næsta haust. „Síðan í framhaldi af því að rætt verðru við forseta þingsins hyggst ég setjast niður með stjórnarandstöðunni og ræða einnig við hana. Eins og ég sagði við þá á fundi okkar um daginn þá þarf að halda þessu samtali áfram.“

Spurður hvenær búast megi við að þingkosningar fari fram segir Sigurður Ingi ekkert hafa breyst í þeim efnum. „Nákvæm tímasetning fer auðvitað bara eftir því hversu vel gengur að koma málum í gegnum þingið. Það er annars rétt að minna á það að strax á fyrsta degi þá skoraði stjórnarandstaðan okkur á hólm og setti á okkur vantrauststillögu og þar kom í ljós að ríkisstjórnin nýtur mikils meirihlutastuðnings á þinginu. Við höfum nokkuð rúman tíma til þess að þoka málum áleiðis og ég vonast til þess að það náist samstaða um það.“

Niðurstaða umboðsmanns Alþingis kemur ekki á óvart

Spurður um niðurstöðu umboðsmanns Alþingis, sem kynnt var á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær þess efnis að ekki væri ástæða fyrir umboðsmann til þess að taka meint vanhæfi ráðherra ríkisstjórnarinnar til skoðunar vegna vinnu við afnám fjármagnshafta og tengsl einstakra ráðherra við aflandsfélög, segir Sigurður Ingi þá niðurstöðu ekki koma sér á óvart. Niðurstaða umboðsmanns hafi verið skýr og í samræmi við það sem ríkisstjórnin hafi haldið fram. Hún hafi enda aðeins haft hagsmuni almennings að leiðarljósi.

Spurður að lokum um Jökulsárlón og fyrirhugað uppboð á jörðinni Felli sem á hluta í svæðinu segir Sigurður umhverfisráðherra hafa kynnt málið á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Mikilvægt væri að ríkið fylgdist vel með til að gæta hagsmuna sinna. Sjálfur hafi hann fundað í morgun með sveitarstjóra Sveitarfélagsins Hornafjarðar um málið.

„Það er mikilvægt að ríkið og ríkisstjórnin vakti það sem þarna er að gerast og tryggi hagsmuni almennings í því máli.“ Spurður hvort rétt sé að ríkið gangi inn í söluna á jörðinni segir Sigurður ótímabært að tjá sig um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert