Vill Jökulsárlón í örugga höfn

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var að kynna málið fyrir ríkisstjórn. Þá ekki síst vegna þeirrar umræðu sem verið hefur í gangi. Ráðuneytið hefur fylgst með þessu máli í nokkurn tíma sem og sveitarfélagið fyrir austan og við höfum átt í viðræðum við það og þær halda áfram. Málið hefur einfaldlega verið í skoðun frá öllum sjónarhornum og í athugun hvað hægt sé að gera.“

Þetta segir Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra í samtali við mbl.is en fyrirhugað uppboð á jörðinni Felli sem meðal annars á um helming Jökulsárlóns. Málið var rætt í ríkisstjórn í morgun en engin ákvörðun tekin að sögn Sigrúnar. Hún hafi farið yfir stöðuna og upplýst ríkisstjórnina um þá vinnu sem fram hefði afrið vegna málsins í umhverfisráðuneytinu.

„Þetta er auðvitað ein af okkur náttúruperlum og hún er að drabbast niður. Ég held að það sjái það allir,“ segir Sigrún ennfremur. „Þetta er eyðijörð í eigu margra aðila, þannig er staðan. Síðan sjáum við bara til hvernig þessi mál þróast. Það verður áfram samráð við sveitarfélagið sem hefur auðvitað áhyggjur af þessu máli eins og við.“

Spurð hvað hún vilji gera í þessum efnum segir hún aðalmálið vera að tryggja að Jökulsárlón séu í öruggri höfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert