Stöðvi árslanga hrinu líkamsárása

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Ungum karlmanni hefur verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 6. maí nk. að beiðni lögreglustjórans í Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur karlmaðurinn hlotið fjölda refsidóma, m.a. fyrir fíkniefnalagabrot, þjófnað, nytjastuld og akstur án ökuréttinda. Sagði lögreglustjórinn nauðsynlegt að stöðva brotahrinu kærða en hann hafi átt samfellda brotahrinu líkamsárása frá því sumarið 2015.

Manninum hafði áður verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 8. apríl en lögreglustjóri taldi að kærði myndi halda áfram brotum á meðan málum hans væri ekki lokið í refsivörslukerfi. Í rökstuðningi segir m.a. að ákærði hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett með dómi frá 17. september á síðasta ári.

Í dómi Héraðsdóms Suðurlands segir að maðurinn hefði hinn 12. mars sl. sparkað í höfuð manns sem var í haldi dyravarða veitingastaðar. Málavextir voru þeir að ákærði hafi ráðist ásamt tveimur mönnum á annan karlmann á salerni á efri hæð staðarins. Fórnarlambið ætlaði að hefna sín en dyraverðir gripu inn í. Þegar fórnarlambið var í haldi dyravarða laumaði ákærði sér inn um bakdyr og, eins og áður sagði, sparkaði í höfuð fórnarlambsins.

Daginn áður hafði lögreglu borist tilkynning frá 16 ára dreng um að kærði hafi ætlað að ráðast á hann og vin hans. Elti kærði drenginn að heimili hans og hótaði honum líkamsmeiðingum. Átti kærði eitthvað sökótt við vin drengsins vegna líkamsárásar gegn honum sem átti sér stað á síðasta ári en málið er í ákærumeðferð.

Loks fannst 1 gramm af áætluðu kannabis-efni á kærða þegar verið var að flytja hann fyrir dóm í kjölfar handtöku.

Dómur Hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert