Vilja reka heiðarleg stjórnmál

Fundurinn var haldinn að frumkvæði Magnúsar Orra Schram.
Fundurinn var haldinn að frumkvæði Magnúsar Orra Schram. mbl.is/Eggert

Húsfyllir var í Iðnó í dag þegar fundur undir yfirskriftinni „Eigum við að vinna saman?“ fór fram. Fundurinn var haldinn að frumkvæði Magnúsar Orra Schram, en var ekki hluti af framboði hans til formanns Samfylkingarinnar.

„Þetta var ofsalega skemmtilegur fundur, það var jákvæðni og uppbyggilegur tónn og mikill áhugi fyrir því að þessi hópur fólks myndi tala saman og vinna málin áfram,“ segir Magnús Orri. 

Á fundinum var möguleikum til samvinnu umbótafla á næsta kjörtímabili velt upp. Fundurinn hófst á framsögum þar sem Dag­ur B. Eggerts­son borg­ar­stjóri, Helgi Hrafn Gunn­ars­son þingmaður, Ilm­ur Kristjáns­dótt­ir borg­ar­full­trúi, Mar­grét Tryggva­dótt­ir fyrr­ver­andi þingmaður og Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir varaþingmaður tóku til máls.

Magnús Orri segir að á fundinum hafi myndast flötur þessara afla til að skoða málin áfram í víðara samhengi.

Fulltrúar frá Bjartri framtíð, Samfylkingunni, Vinstri grænum, Pírötum og Hreyf­ing­ar­inn­ar …
Fulltrúar frá Bjartri framtíð, Samfylkingunni, Vinstri grænum, Pírötum og Hreyf­ing­ar­inn­ar tóku til máls á fundinum. mbl.is/Eggert

Setja stefnuna á framtíðarpólitík

„Við erum sammála um að í núverandi stöðu stjórnmálanna á Íslandi gefast mikil tækifæri. Það eru öfl sem vilja nýja gerð af pólitík og nýjar áherslur í stjórn landsmála. Það er mikill áhugi á að reka nýja gerð af pólitík, segja skilið við þessa gömlu pólitík og reka framtíðarpólitík,“ segir Magnús Orri, en að hans sögn felst framtíðarpólitíkin fyrst og fremst í breyttum vinnubrögðum.

„Annars vegar er þetta ný pólitík í hlutverki vinnubragða og nálgunar og hins vegar eru það áherslurnar.“

Fulltrúar flokkanna eru sammála um nokkur lykilatriði, að sögn Magnúsar Orra „Við erum sammála um nýja stjórnarskrá, við erum sammála um opið samfélag og við viljum berjast fyrir jöfnuði. Við erum einnig sammála um að horfa til frambúðar í atvinnumálum.“

Munu beita lýðræðislegum leiðum komi upp ágreiningur

Aðspurður um þau málefni sem erfitt gæti orðið að mynda samstöðu um, líkt og aðild Íslands að Evrópusambandinu, segir Magnús Orri: „Við erum sammála um lykiláherslurnar og við erum sammála um hvernig við munum greiða úr því ef við verðum ósammála, það kom mjög skýrt fram á fundinum. Við eigum lýðræðislega farvegi til að taka málin áfram ef það er ágreiningur í hópnum.“

Fundurinn í Iðnó var þétt setinn.
Fundurinn í Iðnó var þétt setinn. mbl.is/Eggert

Kosningabandalag, samstarfsyfirlýsing eða hugsmiðja?

Að framsögum loknum var tekið við spurningum úr sal og segir Magnús Orri að líflegar og skemmtilegar umræður hafi myndast í kjölfarið.

„Það var mikil bjartsýni og vor í hjörtum okkar allra þar sem við fundum að við erum að tala um sömu pólitíkina og sömu málefnin. Ég held að vonbrigðin undanfarið með gömlu pólitíkina hafi verið svo kristaltær. Fólk vill opnari pólitík, heiðarlegri og meiri auðmýkt.“

Ekki var tekin ákvörðun á fundinum um hvort eiginlegt kosningabandalag sé að ræða, en Magnús Orri segir að margir möguleikar séu opnir.

„Erum við að tala um kosningabandalag, samstarfsyfirlýsingu eða jafnvel einhvers konar „think-tank“? Það á eftir að koma í ljós en það kom skýrt fram á fundinum að þetta fólk krefst þess af okkur að við stillum saman strengina. Svo er bara spurningin hvernig gerist þetta? Núna er boltinn kominn af stað og er það okkar að taka málið áfram.“

Magnús Orri segir hópinn gera sér grein fyrir að ef til vill er ekki langur tími til stefnu. „En það gefur okkur vítamín að heyra hver tónninn á fundinum var. Fólk vill heiðarlegri stjórnmál og við ætlum að reka heiðarlegri stjórnmál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert